22.3.2009 | 18:01
Enn fluttur og annað að frétta
Vá, það er langt síðan ég bloggaði síðast.. of langt. Ég veit ekki alveg hver öll ástæðan fyrir því er, en stór partur af henni var allavega að mér er ekki búið að líða of vel andlega undanfarið. Sem er nú kannski alveg eðlilegt fyrir peningasinnað nautið, í miðri fjármálakreppu. Þó var það ekki að bæta ástandið að herbergið mitt var farið að þrengja óþægilega að mér. Ég er bara ekki fær um að búa í svona þröngu plássi með allt mitt hafurtask. 5.6fm er bara ekki hægt :)
Ég fékk allavega nóg af dvölinni í kytrunni og fann mér mun stærra herbergi til að leigja, 13,4fm til að vera nákvæmur, og það er bara hreinlega allt annað líf.
Óhætt er að segja að hér líður mér talsvert mun betur, þar sem ég næ ekki veggja á milli, en mest kom mér þó á óvart að með mér í þessari kommúnu hér býr alveg fínasta fólk sem glæðir lífið enn meiri gleði en ella. Meðleigjendur mínir eru þrjár mjög ólíkar manneskjur, og enn ólíkari mér sjálfum, en einhvernvegin erum við öll að fúnkera alveg feikivel saman. Um hverja helgi er setið (eða staðið) og spjallað og notið bjórs og samskipta, og uppi eru plön um að halda matarveislu við tækifæri.. jafnvel grillveislu ef veður gleður og skapið leggst í þá áttina.
Sökum þess hvað ég bý nálægt vinnunni er ég síðan farinn að ganga í vinnuna flest alla morgna, sem er náttúrulega frábært!
Þó er nú ekki að öllu leyti gott að búa hérna. Til dæmis er herbegið staðsett á Grensásvegi, sem þýðir stanslaus umferð fyrir utan gluggann sem getur stundum orðið pirrandi. Einnig hef ég engan póstkassa eða möguleika á slíku (nema ég fari og kaupi mér bara kassa.. sem kostar marga peninga) þannig að ég á ekki möguleika á því að fá póst. Verst er þó að sambýlingar mínir reykja öll þrjú, og það inni í íbúðinni, þannig að ég og allt mitt lyktum eins og öskubakki. Spurning hversu lengi ég mun höndla lyktina áður en ég gefst upp.
Núh, af öðrum fréttum er það einna helst að ég er enn með vinnu.. sem telst nú til stórtíðinda í mínum bransa. Rúmlega 10% starfsmanna (kringum 50 manns) var sagt upp, en í bili eru ekki fleiri uppsagnir áætlaðar. Er ég að vona að ef einhver frekari niðurskurður verði, muni ég þá í mesta lagi missa hluta af vinnuprósentunni. Skal ég frekar þiggja 70% starfshlutfall, en 0% starfshlutfall :)
Einnig gleður mig að segja frá því að ég er loksins farinn að sofa og vakna á svona næstum því eðlilegum tíma. Svefnrannsóknin og ljósmeðferðin er að gera hellings gagn, og er ég búinn að ná vöknun niður að ~8, og mæting í vinnu því svona yfirleitt um 9:30. Á ég ekki von á því að geta náð þessu mikið lengra niður, en þriggja tíma tilfærsla er náttúrulega alveg yndislega jákvæð engu að síður.
Mér er því heilt yfir farið að líða aðeins betur, og vona ég að ég komi til með að uppfæra bloggið oftar í framhaldinu. Maður er loksins farinn að hafa skoðanir á stjórnmálum og fæ reglulega hugmyndir sem ég tel vera til bóta fyrir samfélagið í heild sinni, en ef ég skrifa þær ekki niður eru þær gleymdar 30 sekúndum seinna. Verð ég því að reyna að venja mig á að skella þeim bara fram strax og ég fæ þar, þó að það kosti það að þær verði minna útpældar. Í það minnsta er planið að ég reyni að koma reynslu minni af svefnrannsóknunum á framfæri, þannig að aðrir sjúklingar hinna ýmsu svefnraskana og skammdegisþunglyndis á Íslandi geti hagnast á henni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2009 | 18:49
Landsbyggðarlúðinn einn í stórborginni
Það koma dagar þar sem ég verð virkilega fúll og reiður eða einmanna og leiður, og mig langar bara virkilega að meiða einhvern. Skiptir svosem engu máli hvort sá 'einhver' er ég eða einhver annar. Ég hef fullan skilning með fólki sem sker sig til að framleiða líkamlegan sársauka. Taugaendarnir sjá til þess að líkamlegi sársaukinn ýtir þeim andlega til hliðar í einhvern tíma.. og ef þú heldur áfram að skera þig þá kemst sá andlegi bara aldrei að. Þó hef ég aldrei skorið mig viljandi og þykir blóð heilt yfir frekar ógeðslegt, þannig að aldrei mun ég notast við þær pain-for-pain aðferðir. Hins vegar væri kannski eina vitið að fara bara í box eða kickbox eða eitthvað. Nóg af sársauka þar, og auðvelt að fá útrás fyrir reiði í leiðinni. En þar sem þetta er nú blessunarlega ekki algengt eða reglulegt fyrirbrigði, þá er ég ekki viss um að ég væri jafn til í að orsaka og upplifa sársauka reglulega.
Í dag er einn af þessum miður skemmtilegu dögum. Dagur þar sem allt lífið virðist vera ómögulegt, allir á móti manni og engin von á því að hlutirnir nokkurntíma lagist. Þetta er auðvitað bara svona 'einn af þessum dögum' og gengur yfir með góðum nætursvefni, en það breytir því ekki að þessir dagar taka á sálinni.
Síðan ég uppgötvaði að ég væri þunglyndur þá hef ég auðvitað átt marga svona daga, og þegar þunglyndið hefur verið í fullri uppsveiflu þá eru þetta nú frekar svona dökkar vikur eða dökkir mánuðir en ekki bara einn og einn dökkur dagur. En af hverju koma þessir dagar svona sterkir inn, þrátt fyrir að vera búinn að taka á mínum vandamálum?
Kannski er ástæðan sú að ég gerði það án hjálpar geðdeyfilyfjanna sem læknarnir gáfu mér? Ég meina, geðlyf heilt yfir byggja á þeirri speki að normalísera skapið, en nánast án undantekninga gerist sú normalísering eitthvað fyrir neðan 'gleðilínuna' og dagarnir eru hálf 'pleh' eitthvað. Það er þá skárra að vera 'pleh' heldur en manískur, og verða sér kannski að voða. Og skal ég vera fyrsti maðurinn til að dásama lyfin ef þau virka fyrir fólk. Þau voru bara ekki málið fyrir mig.
Kannski liggur ástæðan í einhverju öðru.. til dæmis þessum langvarandi einmannaleika sem óhjákvæmilega eltir einhleypan Akureyring sem býr einn í Reykjavík langt frá allri sinni fjölskyldu? Því fer fjarri að það að vera nærri fjölskyldunni myndi þýða það að ég færi til þeirra til að ræða mín vandamál. Síðan ég var krakki hef ég leyst mín vandamál sjálfur, og það hefur ekkert breyst í seinni tíð. En maður myndi kannski skreppa í heimsókn eitthvað og hanga þar.. sem dregur úr einmannaleikanum og þá kannski úr vonda skapinu. Að minnsta kosti veit ég fyrir víst að úr mér fer allt vont skap ef ég heimsæki frænku mína, manninn hennar og litlu gríslingana þeirra tvo.
Ég efast ekki um að það eiga allir sína vondu daga, meira að segja Pollyönnufólkið, þannig að ég ætla ekki að fara að kvarta hér og kveina yfir vonda deginum beint. Hins vegar verða þessir dagar sennilega talsvert mikið verri hjá fólki eins og mér, því það sendir mann út á barm hyldýpis sem er manni mjög svo kunnugt og maður hefur virkilega ekki áhuga á að stinga sér aftur ofaní.
En "ef ég er svona einmanna, af hverju dríf ég mig þá ekki bara út og finn mér góða konu", spyrja sennilega flestir sem ekkert skilja og finnst maðurinn bara eiga að hætta þessu væli.
Það eru nokkrar ástæður fyrir því að ég er einn, og skal ég vel viðurkenna að það er að miklu leiti viljandi gert af minni hálfu. Ein af þeim er til dæmis það að ég á við ákveðin trausts-vandamál að stríða. Ég hleypi ekki fólki að hjarta mínu nema treysta því 100%, sem er kannski eitthvað sem enginn ætti að gera því það býður upp á mun stærri skell ef eitthvað kemur uppá. En vegna þess hversu erfitt ég á með að treysta fólki núorðið, er ég lítið í því að setja mig í þær aðstæður að vera svikinn. Eins mikið og ég elska konur og kynlíf og að vakna við hliðiná fallegri konu og allt það... þá hata ég enn meira að vera svikinn. Og ef ég held mig frá konum er allavega bókað að ég verð ekki svikinn af þeim framar. Ekki satt? Nei, ég veit að lífið er ekki svo einfalt, og ég veit það líka að eina vitið í stöðunni er að læra að sleppa hjartanu hægar, en það að vita hvað Á að gera þýðir ekki endilega að maður sé fær UM að gera það.
Þegar ég var 17 ára var ég alveg viss um að um þrítugt myndi ég eiga 3-5 börn og konu og hús og 2.5 bíla og allan pakkann. Núna þegar þrítugsafmælið nálgast hratt er ég hins vegar eins langt frá því markmiði og fræðilega er hægt að komast, án þess að vera hreinlega liðinn. Og að miklu leyti er það jákvætt. Það hefði til dæmis verið hræðilegt að ganga í gegnum allt þunglyndið og viðbjóðinn sem því fylgdi, og þurfa að láta börnin horfa uppá pabba sinn líða hörmulega. Þó mætti kannski færa rök fyrir því að þar sem ég er svona mikill barnamaður, þá hefði ég kannski alveg sloppið við þunglyndið ef ég HEFÐI átt börn... hver veit? En ég veit þó allavega í dag að ég hef þroskast alveg helvítis helling frá því ég var 17 ára, og er því bara þeim mun betur í stakk búinn til að takast á við hver þau vandamál sem geta og munu koma upp í kringum krakkana og sambúðina og allt það.
Og þrátt fyrir að líða stundum eins og ég sé að missa af lífinu hérna, með því að vera ekki byrjaður ennþá, þá er ég langt því frá að vera á leiðinni í eilífðar piprun, og þarf ég ekki að hafa of miklar áhyggjur af því. Jóhanna er lifandi sönnun þess að allra tími kemur á endanum, ef þeir bara hafa þolinmæði og bíða.
Það sem hefur haldið mér heilum í gegnum tíðina, sérstaklega á verstu dögunum, er það sem ég er að gera akkúrat núna. Ef maður spáir í það er ég í raun bara að segja einhverjum bláókunnugum frá mínum vandamálum. Það er ekki það að mér líði betur yfir því að einhver ókunnugur sé að lesa þetta, heldur líður mér betur bara við það að skrifa þetta allt niður og koma því frá mér. Ég vil ekkert frekar að nokkur maður lesi þetta, og það síðasta sem ég vil er einhver vorkun og aumkun. Það er bara einhver therapútía í því að færa hlutina af hjartanu og úr heilanum, og setja þá á netið þar sem þeir geta verið að eilífu eða eins lengi og ég ákveð að hafa þá þar. Ég hugsa að þetta sé að miklu eða öllu leyti það sama og þeir trúuðu gera þegar þeir færa Guði sín vandamál og biðja hann að bera vandamálin því hann er svo sterkur og hjálpar þeim sem þarfnast hans. Kannski er internetið bara minn Guð... til staðar til að færa mér styrk og taka við mínum birgðum þegar ég þarfnast þess. Eða þá að ég nota internetið í stað bæna til að tala við Guð.. hver veit.
Það er allavega þannig að mér er búið að líða virkilega illa í allan dag, (og reyndar verið off alla helgina) en með hverri línunni sem ég skrifa hér líður mér betur og betur. Núna er liðinn rúmur klukkutími síðan ég byrjaði, og það er engin leið að bera saman skapið sem ég er í núna og það sem ég var í þá. Það er algjörlega himin og haf þar á milli! Svo fer ég núna út og fæ mér gott að borða og þaðan fer ég í bíó á Fanboys og hlæ mig máttlausan yfir einhverri helvítis þvælu, og kem svo heim eftir bíó allur betri og rólegri maður. Morgundagurinn verður betri, og allt vonda skapið verður gleymt og grafið.... grafið á internetinu... grafið hjá Guði?...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2009 | 23:36
Komdu fagnandi!
Vill taka þátt í uppbyggingu Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.1.2009 | 14:50
Til hamingju Björgvin
Það er flott að sjá að einhverjir stjórnmálamenn hafa þann manndóm að viðurkenna sín mistök, og sjá að rifan milli stjórnvalda og fólksins í landinu sé orðin ansi stór.
Þetta er skref í rétta átt, og Björgvin hefur unnið sér inn vott af virðingu minni fyrir þetta.
Björgvin segir af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.1.2009 | 17:37
Skemmtileg skemmdarverk
Það má nú svosem lengi deila um það hversu smekklegt þetta krot er, svona í ljósi alvöru málsins, en ég var að fá senda þessa mynd í pósti sem mér skilst að sé af raunverulegu 'veggjakroti' en sé ekki bara photoshop aðgerð.
Ósmekklegt.. já.
Fyndið.. já :)
Áfram mótmæli á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2009 | 12:57
Stórtíðindi í stjórnmálum landsins
Mig langar að byrja á að óska Geir H. Haarde alls hins besta, og vona ég innilega að hann nái sér að fullu af þessu meini. Mér verður auðvitað sérstaklega illt við þegar ég heyri af fólki með æxli, hvort sem það er illkynja eða ekki, þar sem ég veit nákvæmlega hvernig þetta eyðileggur fólk og dregur það oft til dauða langt um aldur fram.
Gangi þér vel Geir.
Nú, útúr þessu öllu kemur svo sú niðurstaða að kosið verður 9 Maí. Auðvitað er ekkert búið að ákveða það 100%, en það vilja allir kjósa og Bláa Höndin hefur veifað þessari dagsetningu, þannig að hún mun eflaust standa.
Þó er mér mein illa við það að það sé kosið svona snemma, því það er hrikalega hætt við því að fólk kjósi Vinstri Græna og Steingrím J. Sigfússon BARA vegna þess að þeir hafa alltaf verið á móti og fólk er almennt á móti núverandi stjórnarháttum.
Steingrímur J. hefur aldrei getað komið með lausnir, eingöngu verið fær um að röfla og vera á móti, og ég er hræddur um að hann og hans flokkur séu litlu betri en Sjálfstæðismenn í stjórn. Vona ég því innilega að fólk hafi vit á því að kjósa málefni og innantóm kosningaloforð, en láti eiga sig að kjósa 'bara af því bara'.
Ég vil taka það fram að ég ef oft sammála Steingrím þegar hann er að væla á þingi og kvarta yfir hlutum. Sumt sem hann segir á bara alveg rétt á sér og ég er alls ekki að gagnrýna hann vegna þess að ég er hlynntur einhverjum öðrum flokki. En öllu ofstæki er ég á móti, og Vinstri Grænir eru eins róttækir og hægt er að vera. Eflaust væri hægt að segja að ég sé einhverskonar miðjumaður.
Hvað sem því líður, þá verður kosið í Maí... og mun ég taka þátt í þeim kosningum eins og mér ber skylda sem hugsandi Íslendingi. Ég vona bara innilega að við sjáum ekki í framtíðinni að þessar kosningar hafi verið mistök.
Geir: Kosið í maí | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.1.2009 kl. 14:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.12.2008 | 11:14
Iss, það er bara kynlífið
Þetta er svosem ágætis grein, og gott að heyra að Carrey sé hættur á lyfjaruglinu sem engan bætir til lengdar, en þó fannst mér niðurlagið alveg sérstaklega illa skrifað og skemmtilegt.
"Carrey segist í dag taka náttúruleg efni til að viðhalda efnajafnvægi í líkamanum. Hann á einnig í ástarsambandi við Jenny McCarthy."
Þessari seinni setningu er slengt þarna inn á svo lélegan og vitlausan máta að maður getur ekki annað en hlegið.
Hann segist taka náttúruleg efni til að líða vel.. æji já, og svo er hann náttúrulega að sofa hjá Jenny McCarthy... sem hlýtur að bæta hvers manns geð.. þó svo að það tengist fréttinni kannski akkúrat ekki neitt :D
Carrey hættur á Prozac | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 25.1.2009 kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2008 | 15:17
Þetta snýst eingöngu um vana..
Ég er búinn að vinna með og nota tölvur með stýrikerfi síðan ca. 1990. Semsagt, í næstum 20 ár. Ég kóðaði minn fyrsta tölvuleik á þessum tíma, enda þótti það bara sjálfsagt að kaupa bók með forritum og leikjum, og forrita það síðan inn í tölvuna. Að sjálfsögðu var þetta allt á Ensku.
Þó að ég sé kannski frekar óvenjulegur að því leyti að ég er mjög hrifinn af Enskunni sem tungumáli, og sé með (oft fáránlega) stóran orðaforða í Ensku, þá er ég alveg gríðarlega ánægður með Íslenskuna sem tungumál, og finnst ekkert leiðinlegra en ljótar slettur og léleg málfræði.
Tvö verstu orð í Íslenskri tungu, eru "Einhvað" og "Eitthver", og því miður sé ég þetta á hverjum einasta degi, hjá fólki á aldrei alveg upp yfir þrítugt. Þetta er sorglegt að sjá og smán fyrir Íslenskukennslu þjóðarinnar! En ég er kominn út fyrir efnið.. "I digress", eins og sagt er á Enskunni.
Þessi tæp 20 ár í tölvunotkun hafa að sjálfsögðu öll farið fram á Ensku, og þetta er svo slæmt að þegar ég sé Íslenskt þýddan hugbúnað þá langar mig bara hreinlega að æla. Þetta er bara hreinn og klár viðbjóður, og það er alls ekki hægt að vinna með þetta! En hvað liggur að baki þessum skoðunum?
Vani heitir það. Vani, og ekkert annað. Og ekki hjálpar að ég er Naut og því ennþá vanafastara en ella. Ég geri mér alveg grein fyrir því að Íslenska þýðingin er örugglega ágæt, en ég veit nákvæmlega hvar allar stillingar eru og hvað þær heita Á ENSKU, og ef ég þarf að vinna eitthvað með stýrikerfið á Íslensku þá finn ég bara bókstaflega ekki neitt. Ég myndi sjálfsagt geta vanist Íslenskunni ef ég ætlaði mér það og vildi, en ég sé minna en engan tilgang með því að draga úr starfs- og afkastagetu minni með slíkri vitleysu.
Ég stend núna í því, eins og nokkrir aðrir Facebook notendur, að þýða Facebook yfir á Íslensku. Orð fyrir orð, setningu fyrir setningu, erum við að þýða Fésbókina algjörlega yfir á hið ástkæra ylhýra. En það merkilega við þetta er að þarna pirrar Íslenskan mig bara miklu minna. Mjög sennilega vegna þess að ég er bara búinn að nota Facebook í svo stuttan tíma, og því eru enskar skipanir og slíkt ekki ennþá komnar upp í vana. Að sama skapi er alltaf verið að fikta í uppröðuninni og stillingunum fyrir bókina, sem aftur hjálpar til við að halda óreglunni gangandi. Ég er því klárlega alls ekki heilt yfir á móti Íslensku í tölvum.. bara þar sem hún er 'fyrir mér'.
Hvað varðar það mál að setja Íslenskuð stýrikerfi og Office pakka í skóla Íslands, þá er það alveg gríðarlega tvíeggjað sverð. Ef við mötum börnin okkar endalaust á Íslenskunni, þá verða þau ómálga og óskrifandi á Enskuna. Ef við Íslenskum ekkert, þá verða þau ómálga og óskrifandi á Íslenskuna. Hvort er skárra?
Þjóðerniskenndin segir að auðvitað sé betra að Íslendingar tali sem besta Íslensku, en mér segir svo hugur að hvort stýrikerfið sé á Ensku eða Íslensku hafi lítið með það að gera. Það sem okkur vantar eru kennarar sem nenna að kenna Íslensku og hætta að gefa eftir. Það var svartur dagur í sögu þjóðar þegar kennara hreinlega gáfust upp á þágufallssýkinni og skelltu "Mér langar í.." í orðabók sem löglegri setningu.
Innan við fimmtungur velur íslensku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.11.2008 | 16:04
Fjandans aumingjar!
Hvernig stendur á því að við þurfum alltaf að níðast á öldruðum og þeim sem eiga um sárt að binda?
Hverslags andskotans aumingjaskapur og ræfilsháttur er það að koma svona fram við þetta fólk sem þarf á þessum vörum að halda?
Nógu fá þau lítið í 'tekjur' og ráða varla við að borga lyfin sín, og núna ákveða yfirvöld að þau tími ekki að greiða fyrir þetta lengur, spara klink í kassann, og gera endanlega útaf við fjármál veika almúgans.
Í þjóðfélagi eins og Íslandi, þar sem velmegunin er búin að vera á blússandi hraðferð upp upp upp upp upp, og við eigum að heita siðmenntuð þjóð með stórkostlega gott sjúkra- og heilsukerfi, þá eru svona aðfarir að gamla og veika fólkinu ekkert nema smán og viðbjóður.
Einn hluturinn enn sem lætur mann skammast sín fyrir að vera Íslendingur.
Eins og að rukka fyrir klósettferðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.11.2008 | 12:12
Súkkulaði og rafgeymasýra.
Í pistli sínum Af súkkulaðikúlu og íslensku leiðinni í alþjóðasamskiptum á Vefritið.is kemur Anna Tryggvadóttir með marga góða punkta varðandi hið Íslenska samfélag og þá þrálátu stefnu stjórnvalda Íslands að ganga um með hlífar fyrir augunum og sjá ekkert nema rósrautt ský þar sem aðrir sjá rigningu og rok.
Meðal annars segir hún svo skemmtilega:
Bretar sögðu: Reglurnar eru skýrar.
Íslendingar sögðu: Reglurnar eiga ekki við núna, því það veldur okkur of miklum óþægindum. (Tilskipunin á ekki við þegar heilt bankakerfi fer á hliðina.)
Það þarf engan lagasnilling til að sjá að rök Íslendinga eru í besta falli veik, í versta falli alveg fáránleg. Ef innstæðutryggingarnar eiga ekki við núna, hvenær þá? Kannski í öll hin skiptin sem bankar fara á hausinn?
En þó er í þessari fínu grein ein lína sem ég bara get ekki verið sammála:
"Hvers vegna ættum við að borga Icesave, spyrja margir. Svarið er óskaplega einfalt. Vegna þess að við vorum búin að skuldbinda okkur til þess."
Við skulum hafa það alveg á hreinu að VIÐ skuldbundum okkur ekki, og ÉG skuldbatt mig svo sannarlega ekki, til þess að greiða niður skuldir auðjöfra Íslands.
Ríkisstjórnin sem leyfði þessu bulli að viðgangast, og peningaflónin sem fóru fyrir borð í þessu máli eru öll sek og þarf helst að koma lögum yfir þetta fólk, en af hverju á ÉG að fara á hausinn vegna þess? Ég er svo vitlaus að ég vissi ekki einusinni að Íslenskir bankar störfuðu utan landssteinanna, hvað þá að þeir væru búnir að skuldsetja þjóðina um 400 metra upp fyrir haus!
Fyrir mann sem er búinn að berjast í 10 ár við að koma haldi á fjármálin hjá sér og er LOKSINS að takast það bara til þess að lenda í þessu helvítis rugli... þetta sýgur úr manni allt líf. Það er ekki til vottur af bjartsýn, gleði, hamingju eða ánægju með eitt eða neitt. Yfir mér situr sá draugur að þurfa að eyða næstu 5-10 árum ævi minnar í að greiða upp skuldir sem eru að margfaldast á meðan ég sit hérna, á meðan fólk í minni atvinnugrein er að missa vinnuna í stórum hópum. Ég er blessunarlega ekki enn búinn að missa vinnuna aftur, og ef Guð lofar þá mun það ekki gerast, en það breytir því ekki að það getur vel gerst og ég yrði ekkert hissa ef það gerðist. Ofan á núverandi vesen er síðan líklegt að ríkisstjórnin þurfi að hækka skattana á borgarana til þess að greiða upp öll þessu lán sem þeir eru að taka þessa dagana, sem þýðir að enn minna verður eftir af laununum mínum og ég fer endanlega á hausinn.. og allar mínar skuldir lenda á foreldrum mínum sem af einskærri góðmennsku skrifuðu að sjálfsögðu uppá alla mína pappíra.
Frábær tilhugsun að vita það að ég þurfi að flytja heim til mömmu (ef maður getur ekki borgað leigu, þá er Hótel Mamma eini kosturinn), gjaldþrota og öreygi, og búa undir því að hafa skellt nokkrum milljónum af skuldum á hana í þokkabót. ÆÐI.
Þannig að nei Anna.. ÉG skuldbatt MIG til þess að greiða niður MÍNAR skuldir, og Íslenska þjóðin í heild sinni skuldbatt sig ekki til þess að greiða niður skuldir ríkustu manna Íslands! Þessir helvítis aumingjar geta séð um sínar skuldir sjálfir!
Um bloggið
Um allt og ekkert
Bækur
sem ég er nýbúinn að lesa
-
: Harry Potter and The Goblet Of Fire
Þetta er nú sennilega í fimmtánda skipti eða eitthvað. Alltaf jafn gott ;)
sem ég er að lesa þessa dagana
-
: Belgarath The Sorcerer -
: Harry Potter and The Order Of The Phoenix
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 455
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar