Steve Martin er hörku Banjóspilari

Fyrir nokkrum mánuðum 'las' ég (hlustaði semsagt á) hljóðbók eftir Steve Martin, lesna af honum sjálfum, sem heitir Born Standing Up. Þetta er sjálfsæfisaga uppfull af bröndurum og skondnum augnablikum úr ævi meistarans, og þegar hann les þetta svo sjálfur verður þetta ennþá fyndnara.

Það sem kom mér þó mest á óvart var að annað slagið greip kallinn í banjóið og spilaði lag og jafnvel söng með. Hann er ekkert sérstakur söngvari en á banjóið kann kauði og það vel.

Hér má sjá Steve Martin taka lagið í fylgd með nokkrum félögum sínum:

 


mbl.is Martin getur ekki lifað án banjós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

STEF með móral út í bloggarana.

Eins og aðrir bloggarar þessarar síðu var ég að fá skemmtilegan póst þar sem notendum er bent á að bannað sé að hafa höfundarréttarvarið efni á blog.is síðum.

STEF voru semsagt að kvarta yfir því að einhverjir notendur hafi virkjað tónlistarspilara og séu að nota hann til að leyfa gestum sínum að hlusta á tónlist.

Hafa þessir menn ekkert betra að gera? Er það að einhverjir bloggarar spili léleg mp3 lög á einhverjum lélegum bloggum sem örfáir lesa og enn færri nota tónlistarspilarann á, virkilega stærsta vandamálið sem herjar á íslenskan tónlistariðnað?  Ef svo er, þá held ég að það sé alveg óhætt bara að loka STEF fyrir fullt og allt... þá er greinilega búið að leysa öll stóru vandamálin.


Vinstri þetta, hægri hitt.. þvílík þvæla!

Það er náttúrulega ekki hægt að rífast um stjórnmál, því skoðanir manna eiga alltaf jafn mikinn rétt á sér.. alveg sama hversu vitlausar þær eru. En ýmislegt er búið að vera að pirra mig og ég bara verð að tjá mig um það.

Allt góðærið var blekking, sem bankakerfið framleiddi, fréttakerfið framreiddi og ríkisstjórnin studdi með því að sofa á verðinum og passa ekki að þessi fífl færu með peningana okkar til helvítis. Allan þennan tíma voru erlendir aðilar og innlendir að vara okkur við því að þetta væri bara ekki hægt. Þá sjaldan að eitthvað slíkt kom í fréttum, þá var þetta málað sem þvaður og skæl og þjóðin leit á þetta fólk sem röflara sem vissu ekkert hvað þeir segðu, því þetta væri bara víst hægt og við værum að gera þetta. Allan þennan tíma var Steingrímur J. eins og gjammandi Chihuahua alveg harður á móti öllu en kom aldrei með eina einustu lausn á neinu. Það er auðvelt að vera á móti ef maður þarf ekki að rökstyðja hlutina.

Það að segja að Sjálfstæðismenn hafi verið á réttri leið og þjóðin hafi stoppað þá er ekkert nema fáviska og bláblóðs heilaþvottur. HORFIÐ Í KRINGUM YKKUR, og sjáið hvað þetta frábæra góðæri Sjálfstæðismanna gerði þjóðinni. EKKERT af þessu frábæra góðæri er eftir í dag, vegna þess að þetta var allt saman blekkingaleikur!

Núverandi stjórn er alveg stórkostlega óheppin, því hún er fengin í það verkefni að þrífa upp skítinn eftir bankalúðana og útrásarvíkingana og einkavæðingarvinasölusjálfstæðisstjórn kolkrabbans. Eðli málsins samkvæmt getur þessi ríkisstjórn ekki gert nokkurn skapaðan hlut nema greitt reikninga, reynt að redda málum og almennt horft upp á þjóðina veslast upp í eymd og volæði. Skattahækkanir og Iceslave samningar og annað sem við erum að taka okkur fyrir hendur kemur til með að koma sér mjög illa fyrir fólkið í landinu, og fólkið í landinu er svo óstjórnlega heiladautt og hraðgleymið að það kennir Vinstri stjórninni um ófarirnar. Alveg er ég viss um að sjálfstæðismenn hafa aldrei verið glaðari en nú, því hendur þeirra eru hvítþvegnar af vinstrimönnum og þeir koma síðan sterkir í næstu kosningar sem 'bjargvættir landsins' og taka við af þessum óhæfu vinstrimönnum og halda áfram að laga það sem vinstrimenn hafa eytt fjórum árum í að laga, og þá er einmitt passlega kominn tími til að lækka smá skatta og gera fólkið pínu hamingjusamara.. glory to the big blue, eh? Ljótu vinstrimenn meiddu okkur og fallegu Sjálfstæðismennirnir koma og kyssa á báttið og setja plástur.

Þvílík eindæmis andskotans vitleysa sem stjórnmálin á Íslandi eru, og þvílíkir djöfulsins hálfvitar sem Íslendingar eru gagnvart stjórnmálum! Liðleysur og bleyður!

Einhver gæti látið sér detta í hug af ofangreindu að ég sé semsagt vinstrimaður með allt á hornum mér varðandi hægristjórn, en ég er bara ósköp venjulegur þreyttur Íslendingur sem misst hefur allt traust á stjórnvöldum landsins.

Kíkjum aðeins á vinstristjórn samtímans. Kíkjum til dæmis á áðurnefndan Steingrím J. Sigfússon. Gjammið er þagnað, en skortur hans á lausnum sem alltaf var svo augljós, lifir enn í dag. Hann er gjörsamlega hrygglaus með öllu. Hann er bara litli skrítni strákurinn sem hangir í stóru krökkunum og er ekkert nema glaður að fá að leika með. Hann passar sig bara að vera ekki með of mikil læti, svo þau hendi honum ekki út.

Ef Steingrímur J. Sigfússon væri í stjórnarandstöðu í dag, þá er ég hræddur um að hann væri búinn að fá hjartaáfall eða sprungna hálsæð af öskrum og látum í þinginu yfir þessari helvítis þvælu sem væri þar í gangi. Eins hjá Jónsa í Eurovision myndum við sjá þumalþykkar æðar á hálsinum þegar hann væri eldrauður í framan að ÖSKRA á samþingmenn sína og reyna að koma vitinu fyrir þá. En nei.. hann er memm núna, og þá er vissara að þegja bara og vera góður. Maður fær ekki að vera memm ef maður er með vesen.

Það er langt því frá að ég sé meira vinstrisinnaður en hægrisinnaður. Ég er bara óskaplegur miðjumaður í öllu sem ég geri. Ég trúi á þá staðreynd að allt er best í hófi, og vinstri og hægri eiga að vinna saman til að framleiða góða miðju. Við höfum gott af smá sjálfstæði og smá kommúnisma. Ég er hins vegar ekki búinn að lifa vinstristjórn til fullnustu og mun sennilega aldrei gera það eftir þetta, þannig að ég NEITA að drulla yfir vinstristjórnina og aðgerðir hennar fyrr en ég hef séð þá vinna óþvingaða. Það er einfaldlega ekki hægt að dæma vinstristjórn nútíma Íslands á aðgerðum sínum í kreppu nútíma Íslands. Hægri menn væru alveg sömu aumingjarnir í sömu stöðu.

Vinstristjórn Vinstri Grænna og Samfylkingar eru að leggja eitthvað sem margir myndu telja óberanlegar byrðar á þjóð sína. Fólk rífst og skammast út í stjórnvöld, og hafa fullan rétt á því, og þessi fjandans Iceslave samningur er náttúrulega ekkert nema sölusamningur þjóðar til kröfuhafa. Þó hef ég ekki enn fengið, frá einum einasta aðila sem rífst og skammast út í Iceslave, einhverja aðra lausn.

Hvað er eftir í stöðunni? Hvað er hægt að gera nema selja sálu sína djöflinum? Hvað getum við gert betur en að semja af okkur? Hvað getum við gert annað en að axla byrðina? Hlýtur spurningin ekki að vera frekar hvort við getum staði saman nógu sterk til að bera þetta án þess að kikna í hnjánum og detta og grafast undir byrðinni þar með?

Íslendingar eru að sjálfsögðu harðir víkingar og sterkir. Við stöndum þetta af okkur eins og við höfum alltaf staðið allt af okkur. Við þurfum að vinna meira, eyða minna og lifa léttar. Eiginlega bakka bara aftur um svona 20-30 ár í hegðun. Við vinnum af okkur þrælasamningana og eftir 3-4 kynslóðir verða málin komin á slíkan stað að það er eins og hrunið hafi aldrei gerst og við getum farið að halda áfram með lífið. Það er þó ljós í myrkrinu að barna-barna-barna-barna-börnin mín munu hafa það ágætt!


Gengið í góða veðrinu

Gönguleiðin

Í gærkvöldi skellti ég mér óvænt í göngu upp í Reykjadal fyrir ofan Hveragerði. Við vorum í sundi bara í sólinni um hálf níu leytið og ákváðum í skyndi að skella okkur á fjöll og baða okkur frekar í einhverjum hverahyl heldur en í heita pottinum.

Nú, ég hef nú seint verið þekktur fyrir svaðilfarir mínar á fjöllum (ég gekk síðast þegar ég var í skátunum, fyrir einhverjum 15 árum síðan) en við erum búnir að vera að ræða það að skella okkur á Esjuna og eitthvað og var þessari hugmynd hans Helga því bara vel tekið mín megin. Við drifum okkur því úr sundi og heim og græjuðum föt og handklæði fyrir ferðina og skelltum okkur af stað.

Ég sótti Helga 21:15 og við lentum í Hveragerði eitthvað kringum 21:45. Vorum við smá tíma að finna hvar þessar gönguleiðir byrja (Fyrir ykkur sem ekki vitið, þá er bara vinstri (270°) beygja á fyrsta hringtorginu, beint í gegnum bæinn, upp með dalnum, til vinstri þegar vegurinn greinist í tvennt við fótboltavöllinn og til vinstri framhjá hesthúsaafleggjaranum þangað til að komið er að bílastæðinu:)) og lögðum því ekki af stað upp fjallið fyrr en rétt fyrir tíu. Þegar við mættum var sólin öll farin (bak við fjallið sem við vorum að klifra) en það var samt 14 stiga hiti og logn og alveg ægilega gott veður.

Gangan 'upp' tók kannski 40-50 mínútur og það var frekar bratt fyrir græningja eins og mig, en ég lifði þetta þó af og þurfti ekki nema eina pásu til að ná púlsinum niður fyrir 200. Samt var maður VERULEGA blautur af svita og það lak svo mikið af enninu á mér og gufan frá mér var þvílík að ég varð að taka af mér gleraugun til að losna við þokuna :) Ég segi 'upp' varlega, því við fórum náttúrulega alls ekki upp á topp. Hægt er að ganga miklu lengra og enn hærra, en við vorum ekkert að fara að missa okkur svona í fyrstu ferðinni. Þessi fyrsti kafli sem við gengum er rétt tæplega 3 kílómetra langur og hækkunin einhversstaðar rúmlega 250 metrar. Meðal halli er því ekki nema 9% (5°) en það var talsvert um 'flatlendi' þegar ofar kom, þannig að ég hugsa að megnið af klifinu hafi verið í kringum 12-15% (7-8°). Það telst nú ekki vera stórafrek fyrir vana, en undirrituðum þótti það nú bara alveg nóg :D

Frekar ofarlega (kannski 2km inn) komum við að stað þar sem horft er yfir alveg þrælflott gljúfur með skemmtilegum fossi í og ákvað ég þá að smella af nokkrum myndum og svo var haldið áfram upp.

Þegar 'upp' var komið eyddum við tíma í að skoða heita lækinn sem rennur þarna í gegn og leita að hæfilegum baðhyljum, en fundum í raun enga svona alvöru hylji eða djúpt vatn til að komast þægilega í. Væntanlega eru þeir bara enn ofar. Við röltum einnig niður að fossinum (ofanfrá) til að sjá hvort að hægt væri að komast að honum (og undir hann) án teljandi vandræða. Við sáum alveg að við gætum farið þangað niður en þetta var frekar bratt og við sáum ekki fram á að komast upp á fljótlegan máta, sem hefði verið verra fyrir Helga því hann átti að vera mættur í partý :) Við slepptum því að klifra niður, en fórum bara aftur upp að litlu hyljunum og Helgi skellti sér í bað. Þetta var frekar skítugt eitthvað fyrir pempíuna þannig að ég lét mér nægja að smella bara af nokkrum myndum af kappanum. :) Eftir baðið var svo bara haldið niður á leið, og var niðurleiðin eitthvað fljótlegri en alls ekkert auðveldari því það er ekkert auðvelt að labba niður í móti í 'miklum' halla. Við lentum því þreyttir en glaðir á bílastæðinu þarna um 00:15, eftir rúma tvo tíma af skemmtun og alveg gríðarlegu afreki af minni hálfu :D

Við komum svo aftur heim á plan til Helga rétt fyrir eitt, nokkuð sáttir með lífið. Þetta var alveg stórskemmtileg ferð. Landslagið var frábært, leiðin var passlega erfið og veðrið var yndislegt, en við hefðum viljað finna alvöru baðstaði. Við verðum þá bara að fara aftur, og í þetta skiptið kannski hafa meiri tíma þannig að það sé hægt að reyna við fossinn líka :)


Sagan af deginum góða

Á föstudaginn síðasta (12.júní) fór ég glaður heim úr vinnu og hlakkaði til að fá loksins helgarfrí í fyrsta skipti í margar vikur. Á morgun skyldi ég sko ekki gera NEITT og njóta þess all svakalega, en dagurinn varð ekki ALVEG eins og ég hafði hugsað mér :)

Ég vaknaði á laugardags'morgun' rétt rúmlega 11, endurnærður og glaður, og byrjaði á því að draga frá myrkrartjöldunum. Sé ég þá ekki að þetta er svona stórkostlega fallegur dagur með glampandi sól og bara almennt æðislegt veður. "Frábært" hugsa ég með mér, "ég fæ þá sumarfrí eftir allt saman".

Ég henti því sundfötum í tösku og renndi upp í Árbæjarlaug. Þar var náttúrulega hæfilega margt, en það voru lausir sólbekkir þannig að undirritaður lagðist bara í sólbað. Þeir sem hafa séð mig geta nú ekki ímyndað sér að ég sjái nokkurntíma sól, en ég lá þarna í mestu makindum í rétt rúma tvo tíma á meðan sólin reyndi að yfirgnæfa birtuna sem kemur af hvítu húðinni minni. Þvílíkt sem það var hrikalega gott að sólbaka alla vöðvana og hita úr þeim vinnuverkina.

Þegar ég var orðinn hæfilega bakaður skellti ég mér í sturtu og uppúr (ég nennti nú ekki að fara að synda.. það var of mikil vinna :), og ákvað að það væri alveg upplagt að renna niður í miðbæ og kíkja á Tattoo Reykjavík 'ráðstefnuna' eða hvað það er nú kallað. Blessunarlega hafði ég haft fyrir því daginn áður að finna hvar þessi Sódóma Reykjavík staður væri (Tryggvagata 22, fyrir ykkur sem reynið að hringja í Símaskránna.. þau vita það nefnilega ekki þar) þannig að ég keyrði beint niður í bæ bara. Þegar ég kom inn var nú ekkert alltof mikið af fólki þar, en allir tattooerarnir voru að stilla sér upp og undirbúa stórverkefni dagsins, og ég náði að spjalla við nokkra þeirra og skoða portfolio'in og safna nafnspjöldum. Ég sá nokkur tattoo í vinnslu, og fékk auðvitað ennþá meiri fíling að nú þyrfti að fara að græja nýtt tattoo.

Eftir að hafa flett í gegnum tugi bóka og séð fullt af tattooum sem mig langaði ekkert í (en eitt, sem Jón Páll var að gera sem mig LANGAR Í) rölti ég aðeins þarna niðri í miðbæ og hugsaði með mér að ég væri nú búinn að gera alveg ótrúlega mikið, svona miðað við að vera að gera nákvæmlega ekki neitt :) Ég hugsaði því með mér að það væri eina vitið að klára þennan frábæra dag með grillveislu. Ég stoppaði því í búð á leiðinni heim og fann mér gott kjöt og sósur og læti, og labbaði beint í gegnum íbúðina og út á pall, þar sem ég fíraði upp grillinu.

Þetta var frábært. Logn úti og sól og ég að grilla gott kjöt. Ég sótti bara stól og öll borðáhöld og kom mér bara fyrir úti á svölum til að borða þar í góða veðrinu, á meðan kjötið fullkomna varð bara betra og betra á grillinu. Ég nánast dansaði um pallinn. Lyktin var yndisleg og ég hef held ég bara sjaldan verið ánægðari með lífið en akkúrat á þessari stundu. Vá hvað þetta er frábær dagur! Ég vissi að kjötið væri tilbúið, þannig að ég snéri mér að grillinu til að ná í það.

....

Í allri gleði minni gleymdi ég að horfa niður fyrir mig og steig í gegnum eitt gatið í pallinum. Ég datt ofan á grillið, sem veltist við það ofan í annað gat í pallinum, og síðan yfir sjálft sig. Ég sé ekkert nema logandi fitu renna um og yfir gaskútinn, og gerði því það fyrsta sem mér datt í hug og reif grillið ofan af kútnum og kastaði því í burtu. Logarnir voru því núna bara á pallinum, en gaskúturinn hékk ennþá fastur í grillinu (Guði sé lof fyrir það.. hvað hefði gerst ef slangan hefði rifnað/slitnað þegar ég reif grillið burt) þannig að ég teygði mig inn á milli loga og sjóðandi heits grillsins og skrúfaði fyrir gasið og slönguna af því eins hratt og ég mögulega gat.
Hjartað keyrði varla undir 6000 slög á mínútu og mig var farið að svíða frekar mikið í hendinni á þeim tíma.

Þegar var búinn að henda gaskútnum inn í íbúð sá ég að rauðglóandi grill'kolin' lágu á víð og dreif í skraufþurrum mosanum og á dekkinu. Ég rauk því næst að garðslöngunni og greip endann inn í íbúð og tengdi við vaskann í flýti og byrjaði svo að smúla allt sem ég mögulega sá með kolum í kringum. Ég eyddi því næsta hálftímanum í að gegnbleyta allan pallinn, látandi vatnið renna yfir brunasárið á handleggnum og oní pallinn, á meðan ég týndi alla molana og grindurnar (og steikurnar) upp úr með grilltöngum og hönskum.

Þegar allir molarnir voru fundnir og ég var handviss um að enginn eldur gæti verið að fela sig fyrir mér, byrjaði ég að týna grillið saman. Í smá skömmtum (ég þurfti að vera 10-15 mínútur undir krananum fyrir hverjar 5 sem ég var þar ekki) raðaði ég grillinu saman, beygði til baka og lagaði allt sem hafði skemmst og bognað, pússlaði 'kolunum' á sinn stað, kom grillinu fyrir á ögn betri stað, strappaði það fast við grindverkið, tengdi kútinn og kveikti aftur undir.

Sjáðu til, mér datt ekki til hugar að láta þetta eyðileggja fyrir mér daginn!

Ég rölti niður í búð og keypti mér pylsur (það var full gróft að eyða aftur mörgum seðlum í kjöt) og fór svo bara upp og grillaði þær í friði og ró. Svo endaði ég fyrir framan sjónvarpið með hendina á kælipoka og borðaði bestu grilluðu pylsur sem ég hef nokkurntíma smakkað.

Eftir matinn og til að toppa þennan frábæra dag, þá dró meðleigjandi minn mig með sér á Terminator 4 í Lúxus, sem var ekkert nema gott. Dagurinn byrjaði æðislega og endaði frábærlega, og er ég bara þakklátur fyrir þennan frábæra dag, þrátt fyrir vesenið í miðjunni.

Boðskapurinn í sögunni er hins vegar mjög einfaldur:

Það er alveg sama hversu örugg við erum og vitum um holurnar í kringum okkur, þá er svo ótrúlega auðvelt að gleyma sér og detta oní. Förum því varlega og verum vakandi. Hver veit nema næsta hola verði aðeins dýpri og við komum aldrei uppúr henni aftur.

Eigið yndislega Lýðveldishátíðarofurferðahelgi, og grillið sem allra allra mest. Það er fátt betra en gott grillkjöt :)

Allt niðurhalinu að kenna.. eða hvað?

Skítt með versnandi efnahag og alheimskreppu, það skal vera hægt að kenna óþjóðalýðnum niðurhölurunum um þetta.

Og svo skulum við ekkert tala um það að þessar myndir eru allar hundgamlar.. alveg 2-3 ára gamlar þær elstu, og búnar að vera til á DVD í lengri tíma. Fyrir okkur sem horfum á svona myndir almennt, og erum DVD safnarar, þá erum við búin að KAUPA þessar fjandans myndir á DVD, og að sjálfsögðu búin að sjá þær.

En nei... auðvitað eru hundgamlar myndir á absúrd kúltúrhátíð á smáeyríki úti í miðjuballarhafi og á bólakafi í alheimskreppu engin orsök, eða í það minnsta ekki fréttnæmar ástæður.

Þetta er allt niðurhalinu að kenna!


mbl.is Niðurhal bitnar illa á Bíódögum Græna ljóssins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eru stjórnmálamenn að gera?

Ég datt niður á ágætis punkt sem Ingi Karlsson kom með í pistli sínum í dag.

Í guðana bænum, það hljóta að vera til stjórnmálamenn sem geta látið verkin tala án þess að þurfa að liggja endalaust yfir smáatriðum og aukaatriðum. Við eigum raunverulega möguleika í stöðunni og það er fullkomið ábyrgðarleysi að mínum dómi að setja ekki á fulla ferð við að nýta þá til að koma okkur í öruggt var fjárhagslega með öllum ráðum.

(http://ingikarlsson.blog.is/blog/ingikarlsson/entry/840779/)

Það er alveg merkilegt, eins og Ingi nefnir, að stjórnmálamenn/konur sem eiga að heita valin af þjóðinni til að stýra þjóðinni í gegnum ólgusjó lífsins, sitja á rassgatinu eins og sofandi hænur á eggjum og það heyrist ekki eitt einasta orð af viti frá þessu fólki.

"Von þjóðarinnar", nöldurseggurinn Steini J., sem er búinn að eyða áratug í að gagnrýna sofandi Sjálfstæðismenn, hrýtur nú úti í horni og sannar að hann er sami helvítis aumingin og allir hinir sem hann svo elskar að gagnrýna.

Hversu flókið er virkilega að bara GERA eitthvað? Af hverju þarf alltaf að eyða 25 árum í eitthvað innantómt blaður áður en einhver rennur fram af borðbrúninni sem hann svaf á, vaknar og GERIR eitthvað?

Hvernig á ég að geta kosið þessi flón? EITTHVAÐ AF ÞESSUM FLÓNUM? Öll eiga þau það sameiginlegt að hugsa um sjálf sig umfram alla aðra, og vera nákvæmlega andskotans sama um það hvort Jón og Gunna eru að fara á hausinn.

Ef einhver stjórnmálamaður/kona getur virkilega logið því að mér að hann/hún muni breyta háttum og gera gagn, skal ég glaður kjósa hann/hana.... en ennþá sé ég ekki betur en ég verði að skila auðu... þetta eru allt aumingjar og lygarar. 


Og við tókum ekki þátt!

Ég er búinn að vera að reyna að ná eyrum þeirra sem gætu mögulega gert eitthvað meira en ég einn (þá aðallega fjölmiðlarnir) og benda þeim á Earth Hour, og hversu ótrúlega jákvætt það væri að taka þátt í þessari aðgerð, en ég hef mætt algjörlega lokuðum augum og eyrum. Mér þykir þetta miður.

Ég heyrði um þessa Earth Hour hugmynd á Facebook fyrir tæpum 2 mánuðum síðan, og er ég mjög hrifinn af því öllu sem vekur fólk aðeins til umhugsunar um áhrif okkar dags-daglega lífs á hækkandi hita og gróðurhúsaáhrif.

Mér líkaði hins vegar mun minna að sjá á heimskortinu yfir þáttökuborgir, að enginn punktur er á Íslandi. Við tökum ekki þátt! Hvernig má það vera að hið sígræna Ísland sem alltaf þykist vera bezt í heimi með hreinasta landið og hreinustu orkuna og hreinasta vatnið og yndislegasta fólkið og allt það, taki ekki þátt í svona viðburði?

Stjórnendur fyrirtækja, stjórnarmenn bæjarfélaga og hinn almenni Íslendingur geta tekið höndum saman og slökkt á öllum ljósum, sjónvörpum og tölvum og öðru slíku í klukkustund. Það hafa allir gott af því að slappa aðeins af í klukkutíma með tekerti og spil.

Kringlan, Smáralind, Mjóddin og aðrir slíkir staðir gætu slökkt á öllum sínum útilýsingum og auglýsingaskiltum. Akureyri, Hafnarfjörður, Keflavík, Reykjavík og önnur bæjarfélög gætu slökkt á allri götulýsingu innanbæjar. (Það myndi ekki skapa neina hættu í umferðinni... við höfum bílljós). Og svo gæti Orkuveitan og Rafveitur landsins mælt hvað orkunotkunin hefði lækkað mikið og þá væri vitanlega hægt að slá fram einhverri skemmtilegri tölu um hvað Ísland sparaði margar milljónir í rafmagnskostnað á þessum eina klukkutíma og velta fyrir sér hvað væri hægt að gera fyrir allar þessar milljónir. Það passar meira að segja að fréttirnar eru búnar þarna rétt fyrir hálf, þannig að fólk missir ekki af þeim. Frábært ef sjónvarpsstöðvarnar myndu slökkva á sér á þessum tíma líka, en ég er nú ekki svo galinn að halda að slíkt væri fýsilegt :D

Voða fínt publicity, hægt að tengja kreppuna inn í fréttina (alltaf jákvætt að spara milljónir), skapar samstöðu og eykur vitund fólks á umhverfisáhrifum. Ljósmyndarar myndu hendast upp í sveit eða burt frá bænum og reyna að taka skemmtilegar myrkramyndir af áður uppljómuðu landslagi. Algjörlega Win/Win fyrir alla nema Orkuveituna... en skítt með þá :)

Er ekki að koma tími til að tala og hugsa um eitthvað annan en þessa helvítis kreppu?


mbl.is Ljós slökkt í borgum víða um heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðin er björt

Ég er búinn að vera að fylgjast mjög náið með Tesla fyrirtækinu síðan ég sá þá fyrst á einhverri tæknisýningu fyrir 4-5 árum síðan. Þá var verið að kynna hið stórfurðulega tækniafrek sem þeir lofuðu að færi fljótt á markað.

Þetta undur var síðan nefnt Tesla Roadster, og er gullfallegur sportbill sem gengur fyrir 100% rafmagni og kemst tæpa 400 kílómetra á einni hleðslu, að því gefnu að maður keyri eins og mamma mín.

Tesla Model S stefnir á 300 mílurnar (480 kílómetra) í hefðbundnum akstri, sem hlýtur að teljast stórkostlegt afrek fyrir rétt tæplega 2 tonn af stórum sjö manna fjölskyldubíl, knúnum áfram af rafmagni. 480 kílómetra drægni þýðir að ég kemst á 200 kílómetra hraða í Blönduós, hleð bílinn á meðan ég dvel í fangelsinu þar, og keyri svo restina af leiðinni norður á 98 ;)

Þó að söluverðið á bílnum séu aðeins litlar 6 milljónir, þá verður þó sennilega langt þangað til ég get eignast svona bíl sjálfur.. en kannski getur maður réttlætt það fyrir sér að samtals er maður að eyða sömu upphæð og maður væri að eyða í bensínbíl + bensín.. hver veit, kannski kaupi ég mér bara Model S og hef gaman af :)


mbl.is Rafmagnsbílar sækja á þrátt fyrir kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Banna rafrettur en lofa sígarettur..

Er enginn annar sem sér hræsnina í því að Ameríkanarnir ætli að taka þessar rafrettur af markaði "vegna þess að það er ekki vitað hversu hættulegar þær eru", á meðan þeir auglýsa hefðbundnar sígarettur í blöðum og sjónvarpi þrátt fyrir að VITA að þær eru BANNVÆNAR!!

Þvílíkt eindæmis kjaftæði.


mbl.is Umdeildar „rafrettur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Um allt og ekkert

Bloggið fjallar svosem um allt og ekkert. Bara ég að henda fram skoðunum mínum og hugsunum, og vonandi mun einhver nenna að lesa þær :)

Bloggari

Árni Viðar Björgvinsson
Árni Viðar Björgvinsson
er áhugamaður um gott líf og jákvæða framtíð, þrátt fyrir allar líkur á því að hvorugt takist :)

Bloggvinir

Bækur

sem ég er nýbúinn að lesa

  • Bók: Harry Potter and The Goblet Of Fire
    J.K. Rowling: Harry Potter and The Goblet Of Fire
    Þetta er nú sennilega í fimmtánda skipti eða eitthvað. Alltaf jafn gott ;)
    *****

sem ég er að lesa þessa dagana

  • Bók: Belgarath The Sorcerer
    David & Leigh Eddings: Belgarath The Sorcerer
  • Bók: Harry Potter and The Order Of The Phoenix
    J.K. Rowling: Harry Potter and The Order Of The Phoenix
    *****

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 455

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband