Færsluflokkur: Bloggar

Jólin, jólin er'að koma...

Já, núna eru jólin loksins á næsta leiti. Það er orðið alltof langt síðan síðast. Það mættu alveg vera jól svona þrisvar á ári.  :)

Það voru mikil vonbrigði að vakna í morgun og sjá að allur snjórinn er farinn úr borginni og marautt úti, en ég get þó huggað mig við það að ennþá er snjór á Akureyri.. hvernig sem það svo mun endast í þessum hita sem spáð er.

Þeir sem þekkja mig vita að ég er rosalegt jólabarn og þykir óendanlega gaman að jólahátíðinni í heild sinni. Þrátt fyrir stressið sem virðist alltaf alla ætla að drepa, þá er fólk almennt í betra skapi og almennilegra við náungann. Það hvílir (vonandi) snjór yfir öllu og hús og tré eru löðrandi í ljósum, sem breytir þynglamalegu myrkrinu í gleðilegt og bjart umhverfi til að lifa í.

Ég hef aldrei talist neitt sérstaklega trúaður maður og fyrir mér er jólahátíðin að engu leiti kristileg hátíð, heldur akkúrat það sem hún var upphaflega áður en kristnir eignuðu sér hana... gleðihátíð til þess að halda upp á þá staðreynd að sólin hefur náð lægsta punkti og er byrjuð að rísa aftur. Dagarnir lengjast og myrkrið minnkar.

Stóri skugginn á hátíðinni er hins vegar allt þetta kaupæði sem hefur umbreytt gleðinni í martröð sem fólk eyðir 11 mánuðum á árinu í að kvíða og óttast. Á eftir fermingum er þetta næst ömurlegasta hátíðin að þessu leiti. Mér finnst gott og gaman að gleðja aðra með gjöfum, og er án efa sekur um það að gefa gjafir sem eru of dýrar, en mitt val er að gefa fólki eins margar gjafir og mig langar til, og þær kosta bara eins mikið og þær þurfa að kosta til þess að ég sé ánægður. En það er samt hálfger geðbilun hvað börn (og reyndar fullorðið fólk líka stundum) í dag ætlast til þess að fá stórar og margar gjafir. Þótt hann hafi að sjálfsögðu verið sögupersóna og skrifaður til þess að tákna á ýktan hátt hvernig börn í dag hugsa, þá er engu að síður sannleikskorn í hegðun Dudley Dursley í Harry Potter bókunum, þegar hann er alveg brjálaður yfir því að hafa 'eingöngu' fengið 37 afmælisgjafir þetta árið.

Það þykir mér alveg klárt að ég mun ofdekra börnin mín að einhverju leyti og jafnvel gera þeim óleik með þeirri hegðun, en þó vona ég að ég geti kennt þeim að skilja að mikilvægi hátíðar eins og jólanna er ekki falið í fjölda gjafanna eða verðmiðans á þeim, heldur þeirri ánægju sem felst í því að hitta fjölskyldu og vini og gleðjast saman, og fagna því að dimmasti punktur ársins er liðinn og við taka bjartari dagar.

Eftir aðeins viku mun ég taka mér jólafrí í vinnunni og fara norður á Akureyri, hugsanlega ná að fara eitthvað á skíði, en aðallega bara njóta þess að deila hátíð ljóss og friðar með fjölskyldunni. Þar mun ég borða of mikið, hreyfa mig of lítið, og reyna eftir bestu getu að njóta hverrar einustu sekúndu af þessu án stress og leiðinda.

Það er mín heitasta ósk að þú, lesandi góður, eigir stórkostlega ánægjulega jólahátíð og fáir tækifæri til þess að njóta samvista með sem flestum af þínum nánustu. Láttu ekki stressið hlaupa með þig fram á bjargbrúnina og stefna andlegri og líkamlegri heilsu þinni í hættu. Jólin er hátíð ljóss og friðar, ekki stress og ófriðar. Og þegar þú situr við jólaborðið, hvar svo sem það er, og nýtur nýrra eða gamalla hefða, vona ég að þú getir stoppað ögn við og hugsað hversu hrikalega heppin(n) þú ert að vera á lífi. Að vera til. Að borða góðan mat. Að eiga góða að. Og ef þú situr ein(n) og niðurdregin(n) er um að gera að drífa sig í næstu kirkju eða súpueldhús eða hvar þar sem umkomulaust og óheppið fólk kemur saman (ég vona að slíkur staður sé til í flestum ef ekki öllum bæjarfélögum) og eigðu stund með fólki þar. Nýjir vinir eru blessun, alveg jafn mikið og þeir gömlu.

Gangi þér vel og gleðilega hátíð.

Jæja góða, 'komdu meðða' þá. Dreptu umræðuna almennilega!

Það er auðvelt að segja "ég er tilbúin til...." og gera ekkert í því. Nú er mál að sýna að kellingin hafi smá 'balls' og fylgja orðum með aðgerðum... sem má reyndar viðurkennast að er ekki sterkasta hlið stjórnmálamanna almennt Devil
mbl.is Ummælin fráleitur þvættingur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð gegn orði og Ísland lepur viðbjóð úr skál.

Mér þykir þetta alveg stórmerkileg fréttamennska.

Framsóknarmenn segja Norðmenn bjóða Íslandi björgunarhring.
Jóhanna segist hafa kannað hvort þetta væri satt, og fengið neikvætt svar.

Hver segir satt? Og á hvaða forsendum? Auðvitað þarf svona að fara fyrir norska þingið og þeir að taka þar ákvörðun í sameiningu. Miðjuflokkurinn getur ekki sagt Á og Stoltenberg getur ekki sagt AF. Hlutirnir virka bara ekki svona!

Það að láta fyrirsögnina segja "Jóhanna beitti sér gegn láninu" er staðhæfing, ekkert annað. Hafa þeir kynnt sér hvort það er einhver sannleikur á bak við fréttina?

Sorglegt er ef satt er, vissulega, en er ekki ákveðin krafa að fréttamenn viti 100% hvað þeir eru að segja, áður en þeir mata alþjóð á saurugri súpunni?

Hverng er það annars, er Davíð líka ritstjóri MBL.is ?


mbl.is Jóhanna beitti sér gegn láninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Playboy vilja ná til yngri lesenda með dónó teiknimyndum...

Eru virkilega engin takmörk fyrir sölumennsku? Þarf núna að selja börnum Playboy? Er Playboy virkilega sú ímynd af konum sem við viljum gefa börnunum okkar? Og er blaðið virkilega ekki bannað ungum lesendum?

Ég hugsa að ég myndi allavega flá þann afgreiðslumann eða -konu lifandi sem seldi krökkunum mínum Playboy blað.


mbl.is Marge í Playboy
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bráðlæti kannski?

Það snjóaði í gærkvöldi, sem er alveg frábært. Ég var alveg brjálæðislega glaður að sjá hvítt yfir öllu, en ég vissi nú líka að þetta myndi ekki endast nema rétt fram að hádegi eða svo. Og það gekk eftir.. rétt eftir hádegi kíkti ég út og þá var allt orðið marautt og þurrt úti.

En ég skil bara alls ekki af hverju fólk var að hlaupa upp til handa og fóta að skella sér í biðraðir á dekkjaverkstæðunum í dag.

Sjáið til,  það er til svolítið sem heita veðurspár, og þó það sé almennt ekki mikið að marka þær þegar þær lofa góðu veðri, þá má alveg taka mark á því að það er að fara að hlýna aftur fyrir helgi. Og í Reykjavík dugar snjór ekki á vegum nema það sé langt undir frostmarki.

Akkúrat núna segir langtímaspáin +3/-3 fyrir daginn í dag, +1/-7 fyrir miðvikudag en engin úrkoma, +3/+2 fyrir fimmtudag og einhver úrkoma, jafnvel slydda, og á föstudaginn er það +7/+4 og rigning. Þörf á vetrardekkjum akkúrat núna? Nei, ég held ekki. Smile

Það skal tekið fram að ég er ekkert nema glaður þegar ég heyri að sunnlendingar séu að undirbúa sig fyrir veturinn og setja alvöru dekk undir bílana, því það þýðir að það eru færri bjánar á sumardekkjum í hálkunni, en ég hugsa að ef ég hefði komið á dekkjaverkstæði og séð biðröð, þá hefði ég bara haldið áfram ferð og farið í vinnuna... það liggur ekki á akkúrat í dag.

Ég hins vegar labbaði nú bara í vinnuna sem oft áður, og mun ekki setja vetrardekkin undir fyrr en ég skrepp næst norður.  Wink


mbl.is Annríki á hjólbarðaverkstæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki-fréttir úr borginni.

Vá hvað það er hrikalega langt síðan maður bloggaði síðast. Ég er alls ekki að standa við það sem ég lofaði mér þegar ég byrjaði aftur að blogga, að í þetta skiptið skyldi ég gera þetta aðeins reglulegar.

Það verður þó að viðurkennast að ekki er líf mitt nú það uppfullt af tilbreytingu að það teljist neitt sérstaklega fréttnæmt.

Daglegt blogg myndi sennilega vera eitthvað á þessa leið:
Í dag vaknaði ég og fór í vinnuna. Svo kom ég heim og borðaði kvöldmat og horfði á sjónvarpsþátt. Núna er ég í tölvunni og svo fer ég að sofa.

Stórkostlega skemmtilegt lesefni, ekki satt :D

Þó hugsa ég nú að það mætti alveg fara einhvern milliveg frá daglega og tvisvar á ári.. til dæmis svona einu sinni í viku, eða  tvisvar í mánuði? Þó ekki væri nema einu sinni í mánuði :)

Það er hins vegar löngu orðið tímabært að skella inn nýrri færslu, og hérna er hún:

---------------------------------

Það er svosem lítið að frétta á vinnuvængnum. Við erum að teikna smáhýsi eins og Tónlistar- og Ráðstefnuhúsið, Háskólann í Reykjavík og Gagnaver Verne í Keflavík, og ennþá hef ég bara nóg að gera. Hvað gerist þegar þessi verk klárast verður bara að koma í ljós. Vonandi verður eitthvað úr öllum þessum spítölum. Ég átti 1.árs vinnuafmæli í byrjun Septembermánaðar, og kom það mér bara virkilega á óvart. Er mín heitasta von í dag að 2 ára afmælið komi mér jafn mikið á óvart.

Á ástarvængnum eru málin að sjálfsögðu í sama forarpyttinum og venjulega.. nákvæmlega ekkert að gerast. Meðleigjendur mínir eru alltaf að reyna að draga mig út á lífið með sér en ég hef einhvernvegin ekki haft neina andlega orku í að fara út að skemmta mér á föstudagskvöldi, eftir þreytandi viku í stressi í vinnunni. Og stressið er búið að vera nánast non-stop í rúmt ár. Einnig er ég svo mikið að reyna að passa upp á líkamsklukkuna að ég er ekki fær um að djamma lengi.

Íbúðarmálin eru í ágætis farvegi hérna. Það er búið að myndast ágætlega þolanlegt og stabílt ójafnvægi milli vandamála heimilisins, þannig að ég get búið hérna án þess að verða alveg brjálaður. Það kom tími fyrir 1-2 mánuðum að ég var viss um að ég færi alveg að hengja mig, en það má öllu illu venjast og eins og fjárhagsstaðan er í dag þá er vissara að bíta bara á jaxlinn og reyna að þola vesenið. Maður þarf ekkert endilega að búa einn, þó það sé vissulega miklu skemmtilega. :)

Hvað vöknun/sofnun varðar þá er kominn frekar góð rútína á þetta. Ég er að sofna svona á bilinu 00:30 og 02:00 yfirleitt, og að vakna 8:30 til 10:00. Ég kemst ekki neðar og mun sennilega aldrei gera, en 8:30 er allavega MUN betra en 11:30! Óregla skemmir þetta auðvitað eitthvað, en þó er reglan orðin það góð að þó ég hafi vakað til rúmlega 5 á laugardagsmorgun, þá vaknaði ég samt 10... sem var bara frábært! Þetta þýðir að ég get farið að leyfa mér að til dæmis fara út á föstudagskvöldi og skemmta mér, og það mun ekki fara stórkostlega illa með klukkuna. Ég vaknaði reyndar leiðinlega seint núna í morgun, en það var nú bara útaf einhverju veseni með klukkuna.. hún hringdi held ég aldrei, eða þá að nýi staðurinn er of nálægt mér þannig að ég næ að slökkva á henni alveg í svefni. Kosturinn við þessa klukku mína er nefnilega að það er vesen að slökkva á henni alveg, og hún snooze'ar á 9 mínútna fresti í einhverja 3-4 tíma, þannig að maður fer alltaf á fætur á endanum.
Fyrir ykkur sem vitið ekki af klukkunni víðfrægu, þá er þetta ríflega 100dB sírena (svipað og þjófavarnir í bílum hafa) sem hristir rúmið. Alveg stórkostleg græja, sem á sinn þátt í viðsnúningnum á líkamsklukkunni í mér. Hægt er að sjá upplýsingar um klukkuna hérna: http://www.thinkgeek.com/homeoffice/lights/8f1a/

Það er nú aðeins meira líf í menningarmálunum hjá manni, og allavega eitthvað smávægilega fréttnæmt. Við Helgi ákváðum að við yrðum að hætta að vera sveitalúðar og fara að 'menninga okkur eitthvað upp', og var fyrsti liðurinn í því Menningarnóttin 22.ágúst.

Við eyddum deginum á rölti um miðborgina og sáum fullt af stórskemmtilegum uppákomum. Heimsóttum Össur í Utanríkisráðuneytinu, fengum íslenskan harðfisk og nammi í Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneytinu, hlustuðum á yndislega tóna í Hallgrímskirkju og svo á smátónleika í Dómkirkjunni. Dagurinn endaði svo að venju á rosa fínni flugeldasýningu á bryggjunni við hálfklárað Tónlistarhúsið. Allt í allt gengum við 12 kílómetra og 30 hæðir af stigum á þessum 9 klukkutímum á fótum, og vorum vægast sagt alveg búnir á því eftir þetta. Var þetta hins vegar alveg frábærasta skemmtun og er eiginlega alveg bókað að undirritaður tekur þátt næsta ár líka.

Núh, þar sem við vorum búnir að 'menninga okkur upp' og komnir í gírinn, þá var ákveðið að kaupa kort í Borgarleikhúsið. Þeir eru með tilboð á fjórum sýningum á aðeins 8.900, sem er í raun svipað verð og tvær og hálf sýning. Svo fær skólafólk kortið á 4.450, þannig að Helgi borgar í raun rétt rúmlega eina sýningu fyrir fjórar. Við keyptum miða á Söngvaseið, Harry og Heimir, Sannleikann og Gauragang. Svo þegar við mættum á Söngvaseið þá keyptum við okkur bara ANNAÐ kort, og erum því að fara líka á Dúfurnar, Fjölskylduna, Fló á Skinni og Dauðasyndirnar. Svo er hugsunin að reyna að ná kannski eins og einum Sinfóníutónleikum líka :)

Söngvaseiður var 25.september og var hreint alveg frábær sýning. Ég held ég hafi aldrei séð myndina alla og var því kannski einn af fáum í salnum sem vissi ekki nákvæmlega hvað myndi gerast á hverjum tímapunkti, en mér fannst þetta allvega alveg æði. Frábær tónlist og bara þrælfínn söngur í flestum tilvikum. Jóhannes Haukur er náttúrulega upptekinn með Hellisbúann sinn, þannig að hann er ekki með í þetta skiptið, þannig að Rúnar Þór þurfti að hraðlæra hlutverkið og reyna að ná hinum í færni. Það kom berlega í ljós að það hefur ekki tekist (voru smá hik hjá honum) en það spillti samt ekkert ánægjunni og hann stóð sig bara mjög vel miðað við að vera svona 'rookie'. Ég mæli allavega alveg hiklaust með þessari sýningu, jafnvel þó að engin séu börnin til að hafa með sér. Ég hef alltaf gaman af góðum söngleik :)

Svo í gær fórum við á Harry og Heimir og fengum að hlægja eins og geðsjúklingar. Auðvitað hefur maður heyrt þessi leikrit þeirra áður, en þeir hafa bætt inn allskonar vitleysu og nútíma þjóðfélagsbröndurum þannig að þetta er nú eiginlega svona meira eins og Spaugstofuútgáfan af Harry og Heimi. Mig langar alveg ógeðslega að skrifa inn nokkra helstu brandarana en það væri bara að skemma ánægjuna fyrir þeim ykkar sem ætlið líka að fara. Og ég segi það hér og nú, þið ættuð að fara! :D

Það er svosem ekki margt annað að frétta núna, en hver veit nema að næsti póstur verði ögn styttri og ögn styttra á milli :D

Vinstri þetta, hægri hitt.. þvílík þvæla!

Það er náttúrulega ekki hægt að rífast um stjórnmál, því skoðanir manna eiga alltaf jafn mikinn rétt á sér.. alveg sama hversu vitlausar þær eru. En ýmislegt er búið að vera að pirra mig og ég bara verð að tjá mig um það.

Allt góðærið var blekking, sem bankakerfið framleiddi, fréttakerfið framreiddi og ríkisstjórnin studdi með því að sofa á verðinum og passa ekki að þessi fífl færu með peningana okkar til helvítis. Allan þennan tíma voru erlendir aðilar og innlendir að vara okkur við því að þetta væri bara ekki hægt. Þá sjaldan að eitthvað slíkt kom í fréttum, þá var þetta málað sem þvaður og skæl og þjóðin leit á þetta fólk sem röflara sem vissu ekkert hvað þeir segðu, því þetta væri bara víst hægt og við værum að gera þetta. Allan þennan tíma var Steingrímur J. eins og gjammandi Chihuahua alveg harður á móti öllu en kom aldrei með eina einustu lausn á neinu. Það er auðvelt að vera á móti ef maður þarf ekki að rökstyðja hlutina.

Það að segja að Sjálfstæðismenn hafi verið á réttri leið og þjóðin hafi stoppað þá er ekkert nema fáviska og bláblóðs heilaþvottur. HORFIÐ Í KRINGUM YKKUR, og sjáið hvað þetta frábæra góðæri Sjálfstæðismanna gerði þjóðinni. EKKERT af þessu frábæra góðæri er eftir í dag, vegna þess að þetta var allt saman blekkingaleikur!

Núverandi stjórn er alveg stórkostlega óheppin, því hún er fengin í það verkefni að þrífa upp skítinn eftir bankalúðana og útrásarvíkingana og einkavæðingarvinasölusjálfstæðisstjórn kolkrabbans. Eðli málsins samkvæmt getur þessi ríkisstjórn ekki gert nokkurn skapaðan hlut nema greitt reikninga, reynt að redda málum og almennt horft upp á þjóðina veslast upp í eymd og volæði. Skattahækkanir og Iceslave samningar og annað sem við erum að taka okkur fyrir hendur kemur til með að koma sér mjög illa fyrir fólkið í landinu, og fólkið í landinu er svo óstjórnlega heiladautt og hraðgleymið að það kennir Vinstri stjórninni um ófarirnar. Alveg er ég viss um að sjálfstæðismenn hafa aldrei verið glaðari en nú, því hendur þeirra eru hvítþvegnar af vinstrimönnum og þeir koma síðan sterkir í næstu kosningar sem 'bjargvættir landsins' og taka við af þessum óhæfu vinstrimönnum og halda áfram að laga það sem vinstrimenn hafa eytt fjórum árum í að laga, og þá er einmitt passlega kominn tími til að lækka smá skatta og gera fólkið pínu hamingjusamara.. glory to the big blue, eh? Ljótu vinstrimenn meiddu okkur og fallegu Sjálfstæðismennirnir koma og kyssa á báttið og setja plástur.

Þvílík eindæmis andskotans vitleysa sem stjórnmálin á Íslandi eru, og þvílíkir djöfulsins hálfvitar sem Íslendingar eru gagnvart stjórnmálum! Liðleysur og bleyður!

Einhver gæti látið sér detta í hug af ofangreindu að ég sé semsagt vinstrimaður með allt á hornum mér varðandi hægristjórn, en ég er bara ósköp venjulegur þreyttur Íslendingur sem misst hefur allt traust á stjórnvöldum landsins.

Kíkjum aðeins á vinstristjórn samtímans. Kíkjum til dæmis á áðurnefndan Steingrím J. Sigfússon. Gjammið er þagnað, en skortur hans á lausnum sem alltaf var svo augljós, lifir enn í dag. Hann er gjörsamlega hrygglaus með öllu. Hann er bara litli skrítni strákurinn sem hangir í stóru krökkunum og er ekkert nema glaður að fá að leika með. Hann passar sig bara að vera ekki með of mikil læti, svo þau hendi honum ekki út.

Ef Steingrímur J. Sigfússon væri í stjórnarandstöðu í dag, þá er ég hræddur um að hann væri búinn að fá hjartaáfall eða sprungna hálsæð af öskrum og látum í þinginu yfir þessari helvítis þvælu sem væri þar í gangi. Eins hjá Jónsa í Eurovision myndum við sjá þumalþykkar æðar á hálsinum þegar hann væri eldrauður í framan að ÖSKRA á samþingmenn sína og reyna að koma vitinu fyrir þá. En nei.. hann er memm núna, og þá er vissara að þegja bara og vera góður. Maður fær ekki að vera memm ef maður er með vesen.

Það er langt því frá að ég sé meira vinstrisinnaður en hægrisinnaður. Ég er bara óskaplegur miðjumaður í öllu sem ég geri. Ég trúi á þá staðreynd að allt er best í hófi, og vinstri og hægri eiga að vinna saman til að framleiða góða miðju. Við höfum gott af smá sjálfstæði og smá kommúnisma. Ég er hins vegar ekki búinn að lifa vinstristjórn til fullnustu og mun sennilega aldrei gera það eftir þetta, þannig að ég NEITA að drulla yfir vinstristjórnina og aðgerðir hennar fyrr en ég hef séð þá vinna óþvingaða. Það er einfaldlega ekki hægt að dæma vinstristjórn nútíma Íslands á aðgerðum sínum í kreppu nútíma Íslands. Hægri menn væru alveg sömu aumingjarnir í sömu stöðu.

Vinstristjórn Vinstri Grænna og Samfylkingar eru að leggja eitthvað sem margir myndu telja óberanlegar byrðar á þjóð sína. Fólk rífst og skammast út í stjórnvöld, og hafa fullan rétt á því, og þessi fjandans Iceslave samningur er náttúrulega ekkert nema sölusamningur þjóðar til kröfuhafa. Þó hef ég ekki enn fengið, frá einum einasta aðila sem rífst og skammast út í Iceslave, einhverja aðra lausn.

Hvað er eftir í stöðunni? Hvað er hægt að gera nema selja sálu sína djöflinum? Hvað getum við gert betur en að semja af okkur? Hvað getum við gert annað en að axla byrðina? Hlýtur spurningin ekki að vera frekar hvort við getum staði saman nógu sterk til að bera þetta án þess að kikna í hnjánum og detta og grafast undir byrðinni þar með?

Íslendingar eru að sjálfsögðu harðir víkingar og sterkir. Við stöndum þetta af okkur eins og við höfum alltaf staðið allt af okkur. Við þurfum að vinna meira, eyða minna og lifa léttar. Eiginlega bakka bara aftur um svona 20-30 ár í hegðun. Við vinnum af okkur þrælasamningana og eftir 3-4 kynslóðir verða málin komin á slíkan stað að það er eins og hrunið hafi aldrei gerst og við getum farið að halda áfram með lífið. Það er þó ljós í myrkrinu að barna-barna-barna-barna-börnin mín munu hafa það ágætt!


Gengið í góða veðrinu

Gönguleiðin

Í gærkvöldi skellti ég mér óvænt í göngu upp í Reykjadal fyrir ofan Hveragerði. Við vorum í sundi bara í sólinni um hálf níu leytið og ákváðum í skyndi að skella okkur á fjöll og baða okkur frekar í einhverjum hverahyl heldur en í heita pottinum.

Nú, ég hef nú seint verið þekktur fyrir svaðilfarir mínar á fjöllum (ég gekk síðast þegar ég var í skátunum, fyrir einhverjum 15 árum síðan) en við erum búnir að vera að ræða það að skella okkur á Esjuna og eitthvað og var þessari hugmynd hans Helga því bara vel tekið mín megin. Við drifum okkur því úr sundi og heim og græjuðum föt og handklæði fyrir ferðina og skelltum okkur af stað.

Ég sótti Helga 21:15 og við lentum í Hveragerði eitthvað kringum 21:45. Vorum við smá tíma að finna hvar þessar gönguleiðir byrja (Fyrir ykkur sem ekki vitið, þá er bara vinstri (270°) beygja á fyrsta hringtorginu, beint í gegnum bæinn, upp með dalnum, til vinstri þegar vegurinn greinist í tvennt við fótboltavöllinn og til vinstri framhjá hesthúsaafleggjaranum þangað til að komið er að bílastæðinu:)) og lögðum því ekki af stað upp fjallið fyrr en rétt fyrir tíu. Þegar við mættum var sólin öll farin (bak við fjallið sem við vorum að klifra) en það var samt 14 stiga hiti og logn og alveg ægilega gott veður.

Gangan 'upp' tók kannski 40-50 mínútur og það var frekar bratt fyrir græningja eins og mig, en ég lifði þetta þó af og þurfti ekki nema eina pásu til að ná púlsinum niður fyrir 200. Samt var maður VERULEGA blautur af svita og það lak svo mikið af enninu á mér og gufan frá mér var þvílík að ég varð að taka af mér gleraugun til að losna við þokuna :) Ég segi 'upp' varlega, því við fórum náttúrulega alls ekki upp á topp. Hægt er að ganga miklu lengra og enn hærra, en við vorum ekkert að fara að missa okkur svona í fyrstu ferðinni. Þessi fyrsti kafli sem við gengum er rétt tæplega 3 kílómetra langur og hækkunin einhversstaðar rúmlega 250 metrar. Meðal halli er því ekki nema 9% (5°) en það var talsvert um 'flatlendi' þegar ofar kom, þannig að ég hugsa að megnið af klifinu hafi verið í kringum 12-15% (7-8°). Það telst nú ekki vera stórafrek fyrir vana, en undirrituðum þótti það nú bara alveg nóg :D

Frekar ofarlega (kannski 2km inn) komum við að stað þar sem horft er yfir alveg þrælflott gljúfur með skemmtilegum fossi í og ákvað ég þá að smella af nokkrum myndum og svo var haldið áfram upp.

Þegar 'upp' var komið eyddum við tíma í að skoða heita lækinn sem rennur þarna í gegn og leita að hæfilegum baðhyljum, en fundum í raun enga svona alvöru hylji eða djúpt vatn til að komast þægilega í. Væntanlega eru þeir bara enn ofar. Við röltum einnig niður að fossinum (ofanfrá) til að sjá hvort að hægt væri að komast að honum (og undir hann) án teljandi vandræða. Við sáum alveg að við gætum farið þangað niður en þetta var frekar bratt og við sáum ekki fram á að komast upp á fljótlegan máta, sem hefði verið verra fyrir Helga því hann átti að vera mættur í partý :) Við slepptum því að klifra niður, en fórum bara aftur upp að litlu hyljunum og Helgi skellti sér í bað. Þetta var frekar skítugt eitthvað fyrir pempíuna þannig að ég lét mér nægja að smella bara af nokkrum myndum af kappanum. :) Eftir baðið var svo bara haldið niður á leið, og var niðurleiðin eitthvað fljótlegri en alls ekkert auðveldari því það er ekkert auðvelt að labba niður í móti í 'miklum' halla. Við lentum því þreyttir en glaðir á bílastæðinu þarna um 00:15, eftir rúma tvo tíma af skemmtun og alveg gríðarlegu afreki af minni hálfu :D

Við komum svo aftur heim á plan til Helga rétt fyrir eitt, nokkuð sáttir með lífið. Þetta var alveg stórskemmtileg ferð. Landslagið var frábært, leiðin var passlega erfið og veðrið var yndislegt, en við hefðum viljað finna alvöru baðstaði. Við verðum þá bara að fara aftur, og í þetta skiptið kannski hafa meiri tíma þannig að það sé hægt að reyna við fossinn líka :)


Sagan af deginum góða

Á föstudaginn síðasta (12.júní) fór ég glaður heim úr vinnu og hlakkaði til að fá loksins helgarfrí í fyrsta skipti í margar vikur. Á morgun skyldi ég sko ekki gera NEITT og njóta þess all svakalega, en dagurinn varð ekki ALVEG eins og ég hafði hugsað mér :)

Ég vaknaði á laugardags'morgun' rétt rúmlega 11, endurnærður og glaður, og byrjaði á því að draga frá myrkrartjöldunum. Sé ég þá ekki að þetta er svona stórkostlega fallegur dagur með glampandi sól og bara almennt æðislegt veður. "Frábært" hugsa ég með mér, "ég fæ þá sumarfrí eftir allt saman".

Ég henti því sundfötum í tösku og renndi upp í Árbæjarlaug. Þar var náttúrulega hæfilega margt, en það voru lausir sólbekkir þannig að undirritaður lagðist bara í sólbað. Þeir sem hafa séð mig geta nú ekki ímyndað sér að ég sjái nokkurntíma sól, en ég lá þarna í mestu makindum í rétt rúma tvo tíma á meðan sólin reyndi að yfirgnæfa birtuna sem kemur af hvítu húðinni minni. Þvílíkt sem það var hrikalega gott að sólbaka alla vöðvana og hita úr þeim vinnuverkina.

Þegar ég var orðinn hæfilega bakaður skellti ég mér í sturtu og uppúr (ég nennti nú ekki að fara að synda.. það var of mikil vinna :), og ákvað að það væri alveg upplagt að renna niður í miðbæ og kíkja á Tattoo Reykjavík 'ráðstefnuna' eða hvað það er nú kallað. Blessunarlega hafði ég haft fyrir því daginn áður að finna hvar þessi Sódóma Reykjavík staður væri (Tryggvagata 22, fyrir ykkur sem reynið að hringja í Símaskránna.. þau vita það nefnilega ekki þar) þannig að ég keyrði beint niður í bæ bara. Þegar ég kom inn var nú ekkert alltof mikið af fólki þar, en allir tattooerarnir voru að stilla sér upp og undirbúa stórverkefni dagsins, og ég náði að spjalla við nokkra þeirra og skoða portfolio'in og safna nafnspjöldum. Ég sá nokkur tattoo í vinnslu, og fékk auðvitað ennþá meiri fíling að nú þyrfti að fara að græja nýtt tattoo.

Eftir að hafa flett í gegnum tugi bóka og séð fullt af tattooum sem mig langaði ekkert í (en eitt, sem Jón Páll var að gera sem mig LANGAR Í) rölti ég aðeins þarna niðri í miðbæ og hugsaði með mér að ég væri nú búinn að gera alveg ótrúlega mikið, svona miðað við að vera að gera nákvæmlega ekki neitt :) Ég hugsaði því með mér að það væri eina vitið að klára þennan frábæra dag með grillveislu. Ég stoppaði því í búð á leiðinni heim og fann mér gott kjöt og sósur og læti, og labbaði beint í gegnum íbúðina og út á pall, þar sem ég fíraði upp grillinu.

Þetta var frábært. Logn úti og sól og ég að grilla gott kjöt. Ég sótti bara stól og öll borðáhöld og kom mér bara fyrir úti á svölum til að borða þar í góða veðrinu, á meðan kjötið fullkomna varð bara betra og betra á grillinu. Ég nánast dansaði um pallinn. Lyktin var yndisleg og ég hef held ég bara sjaldan verið ánægðari með lífið en akkúrat á þessari stundu. Vá hvað þetta er frábær dagur! Ég vissi að kjötið væri tilbúið, þannig að ég snéri mér að grillinu til að ná í það.

....

Í allri gleði minni gleymdi ég að horfa niður fyrir mig og steig í gegnum eitt gatið í pallinum. Ég datt ofan á grillið, sem veltist við það ofan í annað gat í pallinum, og síðan yfir sjálft sig. Ég sé ekkert nema logandi fitu renna um og yfir gaskútinn, og gerði því það fyrsta sem mér datt í hug og reif grillið ofan af kútnum og kastaði því í burtu. Logarnir voru því núna bara á pallinum, en gaskúturinn hékk ennþá fastur í grillinu (Guði sé lof fyrir það.. hvað hefði gerst ef slangan hefði rifnað/slitnað þegar ég reif grillið burt) þannig að ég teygði mig inn á milli loga og sjóðandi heits grillsins og skrúfaði fyrir gasið og slönguna af því eins hratt og ég mögulega gat.
Hjartað keyrði varla undir 6000 slög á mínútu og mig var farið að svíða frekar mikið í hendinni á þeim tíma.

Þegar var búinn að henda gaskútnum inn í íbúð sá ég að rauðglóandi grill'kolin' lágu á víð og dreif í skraufþurrum mosanum og á dekkinu. Ég rauk því næst að garðslöngunni og greip endann inn í íbúð og tengdi við vaskann í flýti og byrjaði svo að smúla allt sem ég mögulega sá með kolum í kringum. Ég eyddi því næsta hálftímanum í að gegnbleyta allan pallinn, látandi vatnið renna yfir brunasárið á handleggnum og oní pallinn, á meðan ég týndi alla molana og grindurnar (og steikurnar) upp úr með grilltöngum og hönskum.

Þegar allir molarnir voru fundnir og ég var handviss um að enginn eldur gæti verið að fela sig fyrir mér, byrjaði ég að týna grillið saman. Í smá skömmtum (ég þurfti að vera 10-15 mínútur undir krananum fyrir hverjar 5 sem ég var þar ekki) raðaði ég grillinu saman, beygði til baka og lagaði allt sem hafði skemmst og bognað, pússlaði 'kolunum' á sinn stað, kom grillinu fyrir á ögn betri stað, strappaði það fast við grindverkið, tengdi kútinn og kveikti aftur undir.

Sjáðu til, mér datt ekki til hugar að láta þetta eyðileggja fyrir mér daginn!

Ég rölti niður í búð og keypti mér pylsur (það var full gróft að eyða aftur mörgum seðlum í kjöt) og fór svo bara upp og grillaði þær í friði og ró. Svo endaði ég fyrir framan sjónvarpið með hendina á kælipoka og borðaði bestu grilluðu pylsur sem ég hef nokkurntíma smakkað.

Eftir matinn og til að toppa þennan frábæra dag, þá dró meðleigjandi minn mig með sér á Terminator 4 í Lúxus, sem var ekkert nema gott. Dagurinn byrjaði æðislega og endaði frábærlega, og er ég bara þakklátur fyrir þennan frábæra dag, þrátt fyrir vesenið í miðjunni.

Boðskapurinn í sögunni er hins vegar mjög einfaldur:

Það er alveg sama hversu örugg við erum og vitum um holurnar í kringum okkur, þá er svo ótrúlega auðvelt að gleyma sér og detta oní. Förum því varlega og verum vakandi. Hver veit nema næsta hola verði aðeins dýpri og við komum aldrei uppúr henni aftur.

Eigið yndislega Lýðveldishátíðarofurferðahelgi, og grillið sem allra allra mest. Það er fátt betra en gott grillkjöt :)

Enn fluttur og annað að frétta

Vá, það er langt síðan ég bloggaði síðast.. of langt. Ég veit ekki alveg hver öll ástæðan fyrir því er, en stór partur af henni var allavega að mér er ekki búið að líða of vel andlega undanfarið. Sem er nú kannski alveg eðlilegt fyrir peningasinnað nautið, í miðri fjármálakreppu. Þó var það ekki að bæta ástandið að herbergið mitt var farið að þrengja óþægilega að mér. Ég er bara ekki fær um að búa í svona þröngu plássi með allt mitt hafurtask. 5.6fm er bara ekki hægt :)
Ég fékk allavega nóg af dvölinni í kytrunni og fann mér mun stærra herbergi til að leigja, 13,4fm til að vera nákvæmur, og það er bara hreinlega allt annað líf.

Óhætt er að segja að hér líður mér talsvert mun betur, þar sem ég næ ekki veggja á milli, en mest kom mér þó á óvart að með mér í þessari kommúnu hér býr alveg fínasta fólk sem glæðir lífið enn meiri gleði en ella. Meðleigjendur mínir eru þrjár mjög ólíkar manneskjur, og enn ólíkari mér sjálfum, en einhvernvegin erum við öll að fúnkera alveg feikivel saman. Um hverja helgi er setið (eða staðið) og spjallað og notið bjórs og samskipta, og uppi eru plön um að halda matarveislu við tækifæri.. jafnvel grillveislu ef veður gleður og skapið leggst í þá áttina.
Sökum þess hvað ég bý nálægt vinnunni er ég síðan farinn að ganga í vinnuna flest alla morgna, sem er náttúrulega frábært!

Þó er nú ekki að öllu leyti gott að búa hérna. Til dæmis er herbegið staðsett á Grensásvegi, sem þýðir stanslaus umferð fyrir utan gluggann sem getur stundum orðið pirrandi. Einnig hef ég engan póstkassa eða möguleika á slíku (nema ég fari og kaupi mér bara kassa.. sem kostar marga peninga) þannig að ég á ekki möguleika á því að fá póst. Verst er þó að sambýlingar mínir reykja öll þrjú, og það inni í íbúðinni, þannig að ég og allt mitt lyktum eins og öskubakki. Spurning hversu lengi ég mun höndla lyktina áður en ég gefst upp.

Núh, af öðrum fréttum er það einna helst að ég er enn með vinnu.. sem telst nú til stórtíðinda í mínum bransa.  Rúmlega 10% starfsmanna (kringum 50 manns) var sagt upp, en í bili eru ekki fleiri uppsagnir áætlaðar. Er ég að vona að ef einhver frekari niðurskurður verði, muni ég þá í mesta lagi missa hluta af vinnuprósentunni. Skal ég frekar þiggja 70% starfshlutfall, en 0% starfshlutfall :)

Einnig gleður mig að segja frá því að ég er loksins farinn að sofa og vakna á svona næstum því eðlilegum tíma. Svefnrannsóknin og ljósmeðferðin er að gera hellings gagn, og er ég búinn að ná vöknun niður að ~8, og mæting í vinnu því svona yfirleitt um 9:30. Á ég ekki von á því að geta náð þessu mikið lengra niður, en þriggja tíma tilfærsla er náttúrulega alveg yndislega jákvæð engu að síður.

Mér er því heilt yfir farið að líða aðeins betur, og vona ég að ég komi til með að uppfæra bloggið oftar í framhaldinu. Maður er loksins farinn að hafa skoðanir á stjórnmálum og fæ reglulega hugmyndir sem ég tel vera til bóta fyrir samfélagið í heild sinni, en ef ég skrifa þær ekki niður eru þær gleymdar 30 sekúndum seinna. Verð ég því að reyna að venja mig á að skella þeim bara fram strax og ég fæ þar, þó að það kosti það að þær verði minna útpældar. Í það minnsta er planið að ég reyni að koma reynslu minni af svefnrannsóknunum á framfæri, þannig að aðrir sjúklingar hinna ýmsu svefnraskana og skammdegisþunglyndis á Íslandi geti hagnast á henni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Um allt og ekkert

Bloggið fjallar svosem um allt og ekkert. Bara ég að henda fram skoðunum mínum og hugsunum, og vonandi mun einhver nenna að lesa þær :)

Bloggari

Árni Viðar Björgvinsson
Árni Viðar Björgvinsson
er áhugamaður um gott líf og jákvæða framtíð, þrátt fyrir allar líkur á því að hvorugt takist :)

Bloggvinir

Bækur

sem ég er nýbúinn að lesa

  • Bók: Harry Potter and The Goblet Of Fire
    J.K. Rowling: Harry Potter and The Goblet Of Fire
    Þetta er nú sennilega í fimmtánda skipti eða eitthvað. Alltaf jafn gott ;)
    *****

sem ég er að lesa þessa dagana

  • Bók: Belgarath The Sorcerer
    David & Leigh Eddings: Belgarath The Sorcerer
  • Bók: Harry Potter and The Order Of The Phoenix
    J.K. Rowling: Harry Potter and The Order Of The Phoenix
    *****

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 323

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband