15.2.2009 | 18:49
Landsbyggðarlúðinn einn í stórborginni
Það koma dagar þar sem ég verð virkilega fúll og reiður eða einmanna og leiður, og mig langar bara virkilega að meiða einhvern. Skiptir svosem engu máli hvort sá 'einhver' er ég eða einhver annar. Ég hef fullan skilning með fólki sem sker sig til að framleiða líkamlegan sársauka. Taugaendarnir sjá til þess að líkamlegi sársaukinn ýtir þeim andlega til hliðar í einhvern tíma.. og ef þú heldur áfram að skera þig þá kemst sá andlegi bara aldrei að. Þó hef ég aldrei skorið mig viljandi og þykir blóð heilt yfir frekar ógeðslegt, þannig að aldrei mun ég notast við þær pain-for-pain aðferðir. Hins vegar væri kannski eina vitið að fara bara í box eða kickbox eða eitthvað. Nóg af sársauka þar, og auðvelt að fá útrás fyrir reiði í leiðinni. En þar sem þetta er nú blessunarlega ekki algengt eða reglulegt fyrirbrigði, þá er ég ekki viss um að ég væri jafn til í að orsaka og upplifa sársauka reglulega.
Í dag er einn af þessum miður skemmtilegu dögum. Dagur þar sem allt lífið virðist vera ómögulegt, allir á móti manni og engin von á því að hlutirnir nokkurntíma lagist. Þetta er auðvitað bara svona 'einn af þessum dögum' og gengur yfir með góðum nætursvefni, en það breytir því ekki að þessir dagar taka á sálinni.
Síðan ég uppgötvaði að ég væri þunglyndur þá hef ég auðvitað átt marga svona daga, og þegar þunglyndið hefur verið í fullri uppsveiflu þá eru þetta nú frekar svona dökkar vikur eða dökkir mánuðir en ekki bara einn og einn dökkur dagur. En af hverju koma þessir dagar svona sterkir inn, þrátt fyrir að vera búinn að taka á mínum vandamálum?
Kannski er ástæðan sú að ég gerði það án hjálpar geðdeyfilyfjanna sem læknarnir gáfu mér? Ég meina, geðlyf heilt yfir byggja á þeirri speki að normalísera skapið, en nánast án undantekninga gerist sú normalísering eitthvað fyrir neðan 'gleðilínuna' og dagarnir eru hálf 'pleh' eitthvað. Það er þá skárra að vera 'pleh' heldur en manískur, og verða sér kannski að voða. Og skal ég vera fyrsti maðurinn til að dásama lyfin ef þau virka fyrir fólk. Þau voru bara ekki málið fyrir mig.
Kannski liggur ástæðan í einhverju öðru.. til dæmis þessum langvarandi einmannaleika sem óhjákvæmilega eltir einhleypan Akureyring sem býr einn í Reykjavík langt frá allri sinni fjölskyldu? Því fer fjarri að það að vera nærri fjölskyldunni myndi þýða það að ég færi til þeirra til að ræða mín vandamál. Síðan ég var krakki hef ég leyst mín vandamál sjálfur, og það hefur ekkert breyst í seinni tíð. En maður myndi kannski skreppa í heimsókn eitthvað og hanga þar.. sem dregur úr einmannaleikanum og þá kannski úr vonda skapinu. Að minnsta kosti veit ég fyrir víst að úr mér fer allt vont skap ef ég heimsæki frænku mína, manninn hennar og litlu gríslingana þeirra tvo.
Ég efast ekki um að það eiga allir sína vondu daga, meira að segja Pollyönnufólkið, þannig að ég ætla ekki að fara að kvarta hér og kveina yfir vonda deginum beint. Hins vegar verða þessir dagar sennilega talsvert mikið verri hjá fólki eins og mér, því það sendir mann út á barm hyldýpis sem er manni mjög svo kunnugt og maður hefur virkilega ekki áhuga á að stinga sér aftur ofaní.
En "ef ég er svona einmanna, af hverju dríf ég mig þá ekki bara út og finn mér góða konu", spyrja sennilega flestir sem ekkert skilja og finnst maðurinn bara eiga að hætta þessu væli.
Það eru nokkrar ástæður fyrir því að ég er einn, og skal ég vel viðurkenna að það er að miklu leiti viljandi gert af minni hálfu. Ein af þeim er til dæmis það að ég á við ákveðin trausts-vandamál að stríða. Ég hleypi ekki fólki að hjarta mínu nema treysta því 100%, sem er kannski eitthvað sem enginn ætti að gera því það býður upp á mun stærri skell ef eitthvað kemur uppá. En vegna þess hversu erfitt ég á með að treysta fólki núorðið, er ég lítið í því að setja mig í þær aðstæður að vera svikinn. Eins mikið og ég elska konur og kynlíf og að vakna við hliðiná fallegri konu og allt það... þá hata ég enn meira að vera svikinn. Og ef ég held mig frá konum er allavega bókað að ég verð ekki svikinn af þeim framar. Ekki satt? Nei, ég veit að lífið er ekki svo einfalt, og ég veit það líka að eina vitið í stöðunni er að læra að sleppa hjartanu hægar, en það að vita hvað Á að gera þýðir ekki endilega að maður sé fær UM að gera það.
Þegar ég var 17 ára var ég alveg viss um að um þrítugt myndi ég eiga 3-5 börn og konu og hús og 2.5 bíla og allan pakkann. Núna þegar þrítugsafmælið nálgast hratt er ég hins vegar eins langt frá því markmiði og fræðilega er hægt að komast, án þess að vera hreinlega liðinn. Og að miklu leyti er það jákvætt. Það hefði til dæmis verið hræðilegt að ganga í gegnum allt þunglyndið og viðbjóðinn sem því fylgdi, og þurfa að láta börnin horfa uppá pabba sinn líða hörmulega. Þó mætti kannski færa rök fyrir því að þar sem ég er svona mikill barnamaður, þá hefði ég kannski alveg sloppið við þunglyndið ef ég HEFÐI átt börn... hver veit? En ég veit þó allavega í dag að ég hef þroskast alveg helvítis helling frá því ég var 17 ára, og er því bara þeim mun betur í stakk búinn til að takast á við hver þau vandamál sem geta og munu koma upp í kringum krakkana og sambúðina og allt það.
Og þrátt fyrir að líða stundum eins og ég sé að missa af lífinu hérna, með því að vera ekki byrjaður ennþá, þá er ég langt því frá að vera á leiðinni í eilífðar piprun, og þarf ég ekki að hafa of miklar áhyggjur af því. Jóhanna er lifandi sönnun þess að allra tími kemur á endanum, ef þeir bara hafa þolinmæði og bíða.
Það sem hefur haldið mér heilum í gegnum tíðina, sérstaklega á verstu dögunum, er það sem ég er að gera akkúrat núna. Ef maður spáir í það er ég í raun bara að segja einhverjum bláókunnugum frá mínum vandamálum. Það er ekki það að mér líði betur yfir því að einhver ókunnugur sé að lesa þetta, heldur líður mér betur bara við það að skrifa þetta allt niður og koma því frá mér. Ég vil ekkert frekar að nokkur maður lesi þetta, og það síðasta sem ég vil er einhver vorkun og aumkun. Það er bara einhver therapútía í því að færa hlutina af hjartanu og úr heilanum, og setja þá á netið þar sem þeir geta verið að eilífu eða eins lengi og ég ákveð að hafa þá þar. Ég hugsa að þetta sé að miklu eða öllu leyti það sama og þeir trúuðu gera þegar þeir færa Guði sín vandamál og biðja hann að bera vandamálin því hann er svo sterkur og hjálpar þeim sem þarfnast hans. Kannski er internetið bara minn Guð... til staðar til að færa mér styrk og taka við mínum birgðum þegar ég þarfnast þess. Eða þá að ég nota internetið í stað bæna til að tala við Guð.. hver veit.
Það er allavega þannig að mér er búið að líða virkilega illa í allan dag, (og reyndar verið off alla helgina) en með hverri línunni sem ég skrifa hér líður mér betur og betur. Núna er liðinn rúmur klukkutími síðan ég byrjaði, og það er engin leið að bera saman skapið sem ég er í núna og það sem ég var í þá. Það er algjörlega himin og haf þar á milli! Svo fer ég núna út og fæ mér gott að borða og þaðan fer ég í bíó á Fanboys og hlæ mig máttlausan yfir einhverri helvítis þvælu, og kem svo heim eftir bíó allur betri og rólegri maður. Morgundagurinn verður betri, og allt vonda skapið verður gleymt og grafið.... grafið á internetinu... grafið hjá Guði?...
Um bloggið
Um allt og ekkert
Bækur
sem ég er nýbúinn að lesa
-
: Harry Potter and The Goblet Of Fire
Þetta er nú sennilega í fimmtánda skipti eða eitthvað. Alltaf jafn gott ;)
sem ég er að lesa þessa dagana
-
: Belgarath The Sorcerer -
: Harry Potter and The Order Of The Phoenix
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.