27.9.2008 | 17:03
Þolandi eineltis segir frá
Á morgun kemur í Morgunblaðinu heljarinnar frétt þar sem tekið verður viðtal við ungan dreng sem fór mjög illa út úr einelti. Þetta er eitthvað sem ég ætla heldur betur að lesa, og vona að sem flestir geri hið sama. Þetta er þjóðfélagslegt vandamál sem virðist oft enda undir teppi hjá stjórnendum skóla og yfirvöldum. "Svona ljótir hlutir gerast ekki í mínum skóla" er viðhorf sem ótrúlega margir foreldrar þurfa að horfa upp á, enn þann dag í dag.
Þegar ég var krakki virðist ég hafa verið eitthvað öðruvísi en hinir, eða þá að einhver hefur tattúerað skotmark framan í mig sem síðan hefur máðst af. Allavega man ég ekki eftir grunnskóla öðruvísi en svo að ég hafi verið lagður í einelti. Reyndar var ekki til neitt sem hét einelti á þessum tíma... ekki það að fólk hafi hegðað sér betur, en það var bara ekki búið að skilgreina hlutinn sem eitthvað sérstakt 'orð'. Ég frétti fyrir ekkert alltof mörgum árum að ég hafi einhverntíma fengið að fela mig undir skrifborðinu hjá kennaranum allar frímínúturnar, vegna þess að ég vildi ekki fara út en það var bannað að vera inni og var mér því hent grenjandi út af gangavörðunum ógurlegu.
Þetta virðist hafa verið ótrúlega skilningsríkur kennari og góð kona, en því miður er það nokkurnvegin það eina sem ég man eftir um hana.. hún var góð kona. Í nútíma þjóðfélagi hefði vonandi eitthvað verið gert; kennarinn kannski talað við yfirvöld og foreldra, en í þá daga "var þetta bara svona" Á þessum sama tíma var Helgi vinur minn lagður í einelti og leið mjög illa, auk þess sem hann þjáðist af ofvirkni eða einhverjum fjandanum. Ein af mínum minningum úr grunnskóla er að hafa staðið við dyrnar að reyna að komast inn á meðan gangavörður/kennari stóð og hélt hurðinni lokaðri. Á sama tíma stóð Helgi hinumegin við dyrnar í bræðiskasti að reyna að fá að komast út (Guð veit hvað hann ætlaði svosem að gera úti frekar en inni) en kennarinn var jafn mikið að meina honum að komast út eins og mér inn. Helgi lamdi því kennarann og fékk að kynnast skólastjóranum eitthvað þann daginn, en sá maður var einnig yndislegur þó ekki hafi hann haft tökin á vandamálum skólans held ég.
Blessunarlega fór eineltið svona að hverfa í lok Gaggans, og þegar maður loksins komst í VMA þá var þetta búið. 16 ára gamall komst maður útúr bekkjarkerfinu og fór að vera með "fólki" en ekki "bekkjarfélögum", og sat ég kannski í tímum með 100 mismunandi manneskjum sama daginn. Þar fór maður loksins að kynnast fólki sem stökum persónum og annað hvort kom fólki saman eða ekki. Ég hugsa að þetta bekkjarlausa kerfi hafi bjargað lífi mínu á þessum tíma, og hryllir mig bara við hugsuninni hvað hefði gerst ef ég hefði skellt mér í MA og haldið áfram að vera í bekk með sama liðinu í 4 ár í viðbót.
Þrátt fyrir það að vera laus við eineltið í dag, er langt því frá að vandamálin hafi bara gufað upp. Það að vera þolandi eineltis í mörg ár hefur ofboðslega skaðleg áhrif á sálina. Það er andlega heilsan, margfalt meira en sú líkamlega, sem skemmist. Ég byrjaði fljótlega að borða frá mér vandamálin; þekkt lausn í þessum heimi; og öll þessi ógrynni af sælgæti og góðmeti urðu til þess að ég varð dálítið feitur. Ekkert svona "obese" Amerísk klisjustærð, en þó nóg til þess að það bættist bara á eineltið. Þetta er náttúrulega vítahringur sem erfitt er að losna út úr. En þarna var andlega vandamálið orðið að líkamlegu vandamáli. Á gelgjuskeiðinu hætti ég að nenna að læra á Píanó og hætti að nenna að stunda Badminton sem ég hafði mjög gaman af, en á móti kom að það byrjaði aðeins að togna úr líkamanum og hann byrjaði að vinna það vel að þrátt fyrir ómældar hitaeiningar hvern dag, þá fitnaði ég í raun ekkert meira. Ég var (og er) bara svona þykkur, og það sést svosem ekkert sérstaklega mikið á mér í dag þrátt fyrir nánast óbreytt líferni frá 15 ára aldri.
Það er hins vegar ákveðinn samnefnari fyrir öll mín vandamál.. það sést svosem ekkert á mér.
Rétt fyrir tvítugt fór ég að taka eftir því að mér leið ekki vel andlega. Það kemur þér kannski svosem ekkert á óvart að mér hafi liðið illa miðað við það sem ég skrifaði hér að ofan, en það sem ég meina er að ég fór svona að taka eftir því og hugsa um það að ég mér liði illa. Ég tók eftir því að ég var orðinn þunglyndur... eitthvað sem var bein afleiðing 10 ára af einelti og erfiðleikum.
Árið 2001, þegar ég var 22 ára, náði þunglyndið hámarki hjá mér. Ég skuldaði fullt af peningum, var að hafa kannski 50-100 þúsund minna inn á mánuði en útgjöldin voru, ég var einmanna, vissi ekki hvað ég ætti að gera í lífinu og listinn virðist hafa verið nokkuð endalaus. Lífið var ómögulegt, og ég ákvað því bara að hætta að lifa því. Ég út í bíl og keyrði um og hugsaði með mér hvað væri best að gera. Ég var vopnlaus (ef bíllinn er frátalinn) og var svona að velta fyrir mér hvort ég ætti að versla mér reipi eða kannski bara að keyra bílinn á 200 fram af brekku oní sjó. Þetta voru sennilega verstu klukkutímar lífs míns; að skipuleggja mitt eigið sjálfsmorð.
Eftir langan tíma gerðist hins vegar eitthvað furðulegt. Í hausnum á mér fóru allt í einu að hringla setningar eins og "Þú getur alveg dílað við þetta" og "Þú þarft ekki að drepa þig" og "Það eru engin vandamál óyfirstíganleg" og margar slíkar setningar sem börðust við þær neikvæðu. Ég keyrði um og barðist við sjálfan mig þangað til ég ákvað að fara heim, drepa mig ekki, og takast á við lífið. Besta ákvörðun lífs míns, og ég efast alls ekki um að þarna hafi ég fengið einhverja utanaðkomandi hjálp. Hvort það var látinn ættingi, engill, andi eða Guð er eitthvað sem ég reyni ekki einu sinni að spá í, en í sameiningu náðum við að bjarga mér frá hyldýpinu.
Eftir þetta fór ég í bankann og baðst vægðar og tók mig á peningalega, en umfram allt tók ég mig á andlega. Ég notaði mína ÓTRÚLEGU þrjósku til þess að ÁKVEÐA að ég væri bara alls ekkert þunglyndur. Mín stefna var semsagt sú sem ég hafði séð í kringum mig alla mína ævi.. það er hægt að sópa hlutum undir teppi og hafa þá þar, án þess að þeir skríði undan og bíti þig í tærnar.
Ekkert löngu eftir þetta fór Helgi vinur minn inn í bílskúr heima hjá sér og batt þar enda á sitt líf. Ég frétti þetta síðan í skólanum daginn eftir og var það held ég í fyrsta skipti sem ég grét í skólanum síðan ég var krakki. Hugsanirnar sem réðust á mig þar voru af hinu versta tagi: "Hann er farinn. Af hverju eyddi ég ekki meiri tíma með honum þegar hann var á lífi? Helvítis auminginn! Af hverju talaði ég ekki oftar við hann. Kannski hefði þetta aldrei gerst ef ég hefði bara talað oftar við hann og við kannski hjálpast að við að takast á við okkar vandamál.? Djöfulsins bjáni að gera okkur hinum þetta! Greyið greyið Helgi að hafa dottið svona lágt." Þetta ýtti undir allar mínar eldri hugmyndir og vanlíðan, ég kenndi sjálfum mér alveg ofboðslega mikið um, en þetta hjálpaði mér líka að vera þakklátur fyrir að hafa náð að vinna sjálfan mig útúr mínu tilræði. Enn þann dag í dag get ég ekki kíkt á leiði Helga öðruvísi en að einhversstaðar kíki á mig púkinn sem segir "þetta er þér að kenna", þrátt fyrir að ég viti undir niðri jafnt sem á yfirborðinu að ég átti enga sök á þessu, og það er alveg eins líklegt að þrátt fyrir að ég hefði verið meira með honum þá hefði hann samt ákveðið að fara. Lífið er ekki bara svart og hvítt.
Eftir þetta allt saman hefur hins vegar þunglyndi mitt verið mun viðráðanlegra. Ég geymi það undir yfirborðinu og reyni að halda lífinu einföldu og vandræðalausu. Ég hef ennþá mín vandamál og ég er ennþá þunglyndur upp að vissu marki, en ég næ allavega (ennþá) að takast á við hvern einasta dag svona tiltölulega vandræðalaust. Ég er einn af þessum heppnu... ég komst lifandi út úr vítahringnum.
Það væri óskandi að allir gætu verið jafn heppnir og ég í því
Ætlaði að pynta þau og drepa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Um allt og ekkert
Bækur
sem ég er nýbúinn að lesa
-
: Harry Potter and The Goblet Of Fire
Þetta er nú sennilega í fimmtánda skipti eða eitthvað. Alltaf jafn gott ;)
sem ég er að lesa þessa dagana
-
: Belgarath The Sorcerer -
: Harry Potter and The Order Of The Phoenix
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta var ekkert smá magnþrungin frásögn. Ég fékk tár í augun eftir lýsinguna í bílnum, hef sjálfur lent í þessum hræðilegu klukkustundum, og það var akkúrat þá sem ég snéri lífinu við. Fann sjálfan mig og byrjaði að gera það sem mig langaði. Hætti einmitt í körfubolta því það var ekkert talað við mig og ég var málaður út í horn. Ég er ánægður fyrir þína hönd að þú náðir að sigrast á þínum kölska.
Ég vona innilega að eitthvað verði gert í þessum málum, bæði fyrir gerendur og þolendur, börnin eru framtíðin, er til of mikils ætlast að við eyðum smá tíma í að gera lífið þeirra sem best?
Ragnar (IP-tala skráð) 27.9.2008 kl. 17:30
Árni minn elsku frændi!! um eineltið vissi ég... um þunglyndið vissi ég....
en aldrei hefuru sagt mér frá sjálfsmorðs hugleiðingum þínum :(
Vissi ekki að þetta hafi gengið svo langt að þú hafir virkilega verið að pæla í að fyrirfara þér....:(
Var þetta um það leyti þegar Helgi fór þessa leið?
almáttugur hvað ég er ánægð að þú tókst ekki "aumingjaleiðina" á þetta. Sjálfsmorð er ekkert annað en uppgjöf og sjálfsvorkunn....það er til fullt af fólki sem hefur gengið í gegnum helvíti á jörð en aldrei einu sinni hugsað um að drepa sig...
knús frá frænku sem brá ferlega að rekast á þessa færslu útí horni við einhverja eineltisfrétt!!
Helga Lind (IP-tala skráð) 27.9.2008 kl. 17:33
og já... þegar við vorum í barnaskóla... var allt þaggað niður.. einelti, heimilisofbeldi, misnotkun.... sem betur fer er allt að opnast í dag, nú má tala um hlutina.... enda geri ég ekki annað en að fræða börnin mín á öllu þessu :)
Helga Lind (IP-tala skráð) 27.9.2008 kl. 17:40
Ragnar: Takk fyrir það og það gleður mig einnig að heyra að þú náðir að takast á við þínum eigin kölska.
Helga: Ég hef reyndar ekki sagt neinum frá þessu svosem, nema kannski 1-2 vinum mínum í Ameríku. Hins vegar langaði mig að þakka þér fyrir að minnast á Helga. Ég var að hugsa um að skrifa aðeins um hann líka þegar ég skrifaði þetta, en gleymdi mér í frásögninni og sleppti honum alveg. Það hefur nú verið lagað.
Árni Viðar Björgvinsson, 27.9.2008 kl. 17:53
Helga Lind. Hvernig getur þú sagt að sjálfsmorðshugsanir séu sjálfsvorkun? Þetta eru hugsanir brotins fólks sem annað hvort vegna utanaðkomandi atburða t.d eineltis eða annars ofbeldis eða vegna geðsjúkdóma ákveða að taka eigið líf. Þetta er aldrei sjálfsvorkun. Þetta eru einfaldlega tilfinningar sem kvikna hjá fólki þegar það er komið á botninn.
Ekki gera lítið úr þessum tilfinningum.
Guðrún (IP-tala skráð) 27.9.2008 kl. 18:14
Ég einmitt var í svipuðum málum og þú nafni minn.
lennti í einelti í skóla, og hætti í skóla út af því, tók eina önn í framhaldskóla og tók þar vélavörðinn en hætti vegna þess að ég hafði engan áhuga á því að vera nálægt þessu fólki sem að lagði mig í einelti (er í vestmannaeyjum og þar að leiðandi var ekki í boði að fara í annan skóla)
ég var gríðarlega þunglyndur í mörg ár á eftir, en átta mig ekki á því sjálfur fyrr en ég er að nálgast 24 ára aldur og það sem að bjargar því að ég fór sjálfur ekki að plana mitt eigið sjálfsmorð er sú að ég var með alveg yndislegri stelpu sem að ég elskaði allt of mikið.
en einmitt var í stanslausum fjárhagsvandamálum, missi íbúð sem að ég átti og það sem að bjargaði mér algerlega var þessi yndislega stelpa sem að ég reyndar ákvað að enda sambandið við til þess að hún gæti nú lifað lífinu, það er ég gat ekki dregið hana niður í mitt þunglyndi.
leitaði mér hjálpar eftir þetta og líður töluvert betur í dag, það er tel mig vera nokkuð lausan við þunglyndi, en það breytir því samt ekki að ég hef samt sem áður engan áhuga á því að hitta þá sem að ég var með í skóla (fyri utan einhverja örfáa)
Árni Sigurður Pétursson, 27.9.2008 kl. 19:26
Guðrún:
Ok..ég viðurkenni að það að segja að sjálfsmorð sé sjálfsvorkunn er kannski heldur gróft... var bara að reyna að benda á að það er fullt af fólki sem hefur gengið í gegnum mikið verri og hræðilegri hluti en einelti... sem heldur samt áfram að lifa sínu lífi með von um bjarta framtíð og alltaf með lífsgleðina og baráttuviljann. Það að ákveða að taka sitt eigið líf er viss uppgjöf... skal ekki segja sjálfsvorkunn.. en uppgjöf.
Helga Lind (IP-tala skráð) 27.9.2008 kl. 19:50
Sæll Árni,
Takk fyrir að deila þessari reynslu þinni með okkur. Það krefst hugrekkis að koma fram og segja alþjóð frá innstu tilfinningum á þennan hátt. Líkt og Ragnar, þá táraðist ég við að lesa færsluna þína, hún var einstaklega mögnuð.
Sem grunnskólakennari snerta frásagnir af einelti mig sérstaklega - maður er sífellt að hugsa hvort maður sé að standa sig í stykkinu við að greina einelti meðal nemendanna og hvort maður nái að taka rétt á málunum ef slík atvik komi upp. Því miður finnst mér oft eins og hugtakið sé ofnotað, öll stríðni verður að einelti í hugum sumra og það gerir um leið lítið úr vandanum hjá þeim sem eru að lenda í alvöru einelti, þ.e.a.s. sama manneskjan sem verður sífellt fyrir (skipulögðu) áreiti, stríðni eða hunsun frá samferðafólkinu.
Takk fyrir að vekja okkur öll til umhugsunar!
Sigurrós (IP-tala skráð) 27.9.2008 kl. 20:25
Sæll Árni
Þetta er sannarlega átakanlega færsla hjá þér, takk fyrir að deila þessu með okkur. Ég vona að þér muni áfram takast að halda þunglyndinu niðri og lifa þínu lífi.
Helga Lind: Fyrir um það bil þremur árum síðan var ég á sömu skoðun á þú. Að sjálfsmorð væru uppgjöf og sjálfsvorkun og það eigingjarnasta sem nokkurri manneskju gæti dottið í hug að gera (þar sem þau eiga það til að rústa lífi bæði vina og ættingja viðkomandi). Síðan þá hefur margt breyst. Góð vinkona mín fyrirfór sér. Ég lenti sjálf í þunglyndi. Ég varð eldri, þroskaðri og skilningsríkari. Núna myndi ég aldrei segja nokkuð þessu líkt. Kannski munt þú líka skilja einn daginn hvernig það er að líða svona af eigin reynslu.. en ég vona ekki, þín vegna! Ég held það sé samt eina leiðin til að fatta til fulls hvað gæti fengið manneskju til að binda enda á líf sitt. Þangað til vona ég að þú hugsir þig tvisvar um áður en að skrifa e-ð eins og "aumingjaleiðina".
Bestu kveðjur,
Salóme Mist
Salóme Mist (IP-tala skráð) 27.9.2008 kl. 20:57
Brósi, þú ert maðurinn.
siggi (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 02:39
Árni, takk fyrir átakanlega en þarfa færslu. Einelti var bara eitthvað sem var, eins og þú sagðir. Krakkar láta bara svona. Lemdu bara frá þér.
Sem betur fer fann einhver upp "orðið" og nú er farið að taka á þessu. Misvel, en það er byrjun þegar samfélagið viðurkennir að vandamálið sé yfir höfuð til. Ég veit ekki hvað þú vinnur við, en ég held að skólakerfið hefði mikið við fólk eins og þig að gera. Fólk sem hefur orðið fyrir einelti, sokkið niður á botn en náð að byggja upp sómasamlegt líf. Krakkarnir myndu hafa gott af að heyra frásögn þína og skilja hvað hún þýðir. Hrekkjusvínin mega alveg skilja hvað athafnir þeirra geta haft í för með sér og fórnarlömbunum mun sennilega líða betur ef þau vita að þau eru ekki ein í heiminum og að það er líf eftir daginn í dag.
Vona að ég sé að meika sens. Í öllu falli, takk fyrir frábæra frásögn.
Villi Asgeirsson, 28.9.2008 kl. 12:02
Þetta er frábær póstur og Árni er hetja og ekkert minna. Ég lenti sjálfur í alvarlegu einelti í grunnskóla og það gleður mig mjög að sjá að fleiri og fleiri eru að leggja sitt að mörkum til að gera þetta gamla vandamál sýnilegt.
P.S. Mig langaði samt að benda þér á að þetta í Mogganum er reyndar ekki viðtal, heldur klippur teknar úr ritverki eftir þennan "unga mann", eins og Mogginn kallar hann. Ritverkið í heild sinni er hægt að sjá á www.hugo.is og ég mæli eindregið með því að bókstaflega ALLIR lesi það.
Reynir (IP-tala skráð) 29.9.2008 kl. 15:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.