Færsluflokkur: Dægurmál

Æði!

Það er náttúrulega engin spurning um að þarna er smávægilegt höfundarréttarbrot í gangi, enda verið að stela senum úr kvikmynd, en hvað með það.. þetta er snilldarlega gert :D

Myndbandið er einnig á YouTube: http://www.youtube.com/watch?v=eZO3BlQGmRA


mbl.is James Bond - kreppuspaug á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Símafyrirtækin að svíkja notendur?

Nú er svo komið að allavega Vodafone og Síminn hafa bæði hækkað verðskránna sína á öllum internet tengingum, ásamt því að minnka það niðurhal sem notendur hafa leyfi til að sækja erlendis frá. Vodafone virðist meira að segja hafa gengið svo langt að lækka hámarks hraða línanna, hætta að gefa upp hvað línan á að vera hröð og  útrýma hinu svokallað "Verðþaki", þannig að núna verður alltaf rukkað fyrir allt niðurhal umfram hámarkið. Vona ég þó að það þýði að hraðatakmarkanir sem áður hefur verið beitt, verði felldar niður.

Vandamálið er hins vegar að amk. Vodafone hefur ekki tilkynnt sínum notendum um þessa breytingu með neinum hætti. Hvort það þýðir að notendur fá að halda sínum kjörum og þeim áskriftarleiðum sem þeir völdu sér áfram, eða hvort þessu verði breytt án þeirra vitundar, verður bara að koma í ljós.... rukkunin verður sjálfsagt bara allt í einu komin í póstkassann með talsvert hærri tölu.

Ef við lítum á gjaldskránna eins og hún var þá sjáum við að í boði voru hinar ýmsustu þjónustuleiðir en allar voru þær ákveðnar í hraða og gagnamagni, en allt umfram 80GB var samt ekki rukkað heldur var línan bara skorin niður í 4kBps:

Svo lítum við á nýju verðskránna, en hér er búið að taka algjörlega út hvaða hraða notendur fá, svo Vodafone geti leikið sér að takmarka hraða allra notenda án þess að þeir geti kvartað. Fyrir utan lægri hraða, er síðan líka búið að hækka verðið um 3000 krónur, ef við gefum okkur að þessi "Mesti hraði" þeirra séu 8Mb línurnar frá eldri tíð, eða 2000 krónur ef "Mesti Hraði" er svipaður 12Mb línunni.. en auðvitað vitum við að hraðinn verður aldrei svo stöðugur og hraður:

Verðskrá

Ég er sjálfur ekki notandi hjá Símanum og nenni ekki að taka í gegn verðskrár þeirra, sérstaklega þar sem ég veit ekki hvað var verð að borga fyrir breytingu, en það er alveg víst að það er svipað uppi á tengingnum hjá þeim og væntanlega öllum internetveitum í landinu. Hér er enn verið að níðast á almúganum og hækka verðin í skjóli versnandi efnahagsástands. Enn og aftur er verið að taka notendur í ósmurt!


Fréttamenn kíki niðreftir takk.

Mér þætti gaman ef þessi fréttamaður hefði gert sér leið niður á Atvinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins og annarra stórra sveitarfélaga, og hefði fengið upplýsingar um laus störf sem enginn er að vinna.

Það er nefnilega stór munur á venjulegu Atvinnuleysi, og Atvinnuleysi sökum skorts á atvinnu.

Þegar ég missti vinnuna 1.ágúst, fór ég niður á Atvinnumiðlun og skráði mig atvinnulausan til þess að fá mínar bætur. Ég var að leita að nýrri vinnu sem hæfði mínu námi, og vildi fá allavega einhverja peninga í millitíðinni ef illa gengi að fá vinnuna. Í það heila kom ég held ég 4 sinnum niður á Atvinnumiðlun á um 2 mánaða tímabili, og alltaf voru tugir eða hundruðir lausra starfa í boði sem ég sá uppi á korktöflu, og svo haugur til í tölvukerfinu. Ég gekk hinsvegar framhjá þessum lausu störfum því ég var ekki að leita mér að þessum störfum.. og mér leið satt að segja mjög illa.

Ég skammaðist mín fyrir að vera svo kræfur að heimta bætur þegar það vantaði fólk í vinnu útum allt!

Hins vegar réttlætti ég það fyrir mér sem svo að ég VAR að koma úr skóla og búinn að eyða fullt af peningum í það, og fannst lágmarkið að gera allt sem ég gæti til þess að finna mér vinnu við þann starfsvettvang. Ef ég hefði ekkert fengið fljótlega (innan kannski 2-3 mánaða) þá hefði ég farið og fengið mér öðruvísi vinnu.

Þarna kaus ég semsagt að vera á atvinnuleysisskrá frekar en að taka þeim störfum sem eru í boði. Spurningin er því, hversu margir af þessum 3.700, gætu verið að vinna akkúrat núna?


mbl.is Rúmlega 3.700 á atvinnuleysisskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útflutningur á þekkingu

Það gleður mig alltaf þegar Íslendingar standa í ALVÖRU útflutningi sem bragð er að. Hér er verið að selja út mikla þekkingu og reynslu Íslendinga á sviði jarðvarmaorku, sem við erum jú algjörir sérfræðingar í, enda 98% af Íslenskum heimilum kynnt með heitu vatni úr borholum landsins.

Það má vel vera að Jarðborganir teljist að einhverju leiti keppinautar míns vinnuveitanda, en maður verður að óska þeim til hamingju engu að síður :) 


mbl.is Stærsti samningur Jarðborana erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strætó gefur ekkert eftir

Já, strætó neitar að gefa frítt í strætó fyrir alla námsmenn. Þeir þurfa að vera búsettir á höfuðborgarsvæðinu og hafa þar lögheimili. Þeir þurfa að vera íslendingar en ekki útlendingar. Þeir þurfa að nota skóstærð á milli 36 og 44. Þeir þurfa að ganga í köflóttum nærfötum og vera með bleika húfu. Errm

Á Akureyri fá allir frítt í strætó.. námsfólk, gamlar konur, túristar, perrar, hommar og meira að segja Listamenn! Engin mismunun þar í gangi. Joyful
Þetta nýta bæjarbúar og allir gestir Akureyrar sér óspart, og hefur notkun strætó aukist eftir þetta. Það þýðir, de facto, að notkun einkabíla (leigubílar teljast þar með) hefur minnkað. En svo þegar Akureyringar eru neyddir til þess að koma suður í Höfuðborgina sína til að klára námið vegna þess að stjórnvöld vilja ekki hafa námið á of mörgum stöðum... þá er ekki nóg að námsfólk sé að borga stjarnfræðilega há fargjöld milli staða til að komast heim í fríum og á hátíðisdögum, og þurfi að borga húsaleigu LANGT fyrir ofan öll velsæmismörk og fái svo þennan brandara sem kallast "Dreifbýlisstyrkur" eða "Námslán", heldur þurfa þau í þokkabót að punga út fyrir strætó líka! Námsfólk hefur einmitt efni á því að eyða 5-10 þúsund á mánuði í VIÐBÓT við allt hitt. Þeir sem halda því fram að námsfólki sé engin vorkun að borga í strætó ættu kannski að prófa að lifa með þær tekjur og þau útgjöld sem meðal Akureyringur í skóla í Reykjavík þarf að þola. Flestir ráðamenn hefðu nú gott af því líka. Eftir 6 mánuði af því myndi þetta fólk sennilega grjót halda kjafti um þetta mál, eða jafnvel skilja af hverju við erum að kvarta. Angry

Þetta er bara svo vitlaust allt saman. Það græða bókstaflega allir á því að fleira fólk noti strætó og hætti að nota einkabíla. Minni mengun, minna vegslit, betri nýting á strætó sem aftur verður að fleiri ferðum per leið og styttri bíðtima milli vagna, ódýrari rekstur fyrir námsfólk og svo framvegis. Námsfólk á ekki of mikið af peningum, og ef stjórnvöld vilja að það noti almenningssamgöngur og nenni að takast á við óþægindin sem fylgja því, þá þarf það að vera frítt!

Þetta er valið sem blasir við fólki:
1) Ég get borgað 10.000 fyrir bensín á bílinn minn sem ég hoppa í þegar ég vill og kemst þangað sem ég vill á stuttum tíma. Ég sit einn í bílnum alla leið, sit heillengi í umferðarteppu, er svipað lengi á leiðinni eins og liðið í strætó, nema bara það er hlýrra hjá mér og skemmtilegri tónlist.
2) Ég get borgað 5.000 fyrir strætókórt sem lætur mig þurfa að ganga í veðri og vindum að næstu stoppustöð, bíða þar, stoppa á hverri einustu stoppustöð, skipta um strætó á miðri leið, stoppa svo aftur á hverri einustu stoppustöð þangað til mér er sleppt út á stoppustöð sem er leiðinlega langt frá áfangastaðnum og ég þarf að ganga í óveðri og vindum til að komast á áfangastað.

Hvorn valmöguleikann velur þú ? Já... ég líka Smile

En ef það væri FRÍTT í strætó, þá upphefst alveg gríðarleg sjálfsblekking um "gróða", og þá verður allt í einu miklu auðveldara að díla við vesenið sem fylgir strætó. Oft náum við að blekkja okkur þrátt fyrir að vita sannleikann.. er mannskepnan ekki yndislega vitlaus ? Tounge


mbl.is Fá ekki nemakort
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þolandi eineltis segir frá

Á morgun kemur í Morgunblaðinu heljarinnar frétt þar sem tekið verður viðtal við ungan dreng sem fór mjög illa út úr einelti. Þetta er eitthvað sem ég ætla heldur betur að lesa, og vona að sem flestir geri hið sama. Þetta er þjóðfélagslegt vandamál sem virðist oft enda undir teppi hjá stjórnendum skóla og yfirvöldum. "Svona ljótir hlutir gerast ekki í mínum skóla" er viðhorf sem ótrúlega margir foreldrar þurfa að horfa upp á, enn þann dag í dag.

Þegar ég var krakki virðist ég hafa verið eitthvað öðruvísi en hinir, eða þá að einhver hefur tattúerað skotmark framan í mig sem síðan hefur máðst af. Allavega man ég ekki eftir grunnskóla öðruvísi en svo að ég hafi verið lagður í einelti. Reyndar var ekki til neitt sem hét einelti á þessum tíma... ekki það að fólk hafi hegðað sér betur, en það var bara ekki búið að skilgreina hlutinn sem eitthvað sérstakt 'orð'. Ég frétti fyrir ekkert alltof mörgum árum að ég hafi einhverntíma fengið að fela mig undir skrifborðinu hjá kennaranum allar frímínúturnar, vegna þess að ég vildi ekki fara út en það var bannað að vera inni og var mér því hent grenjandi út af gangavörðunum ógurlegu.

Þetta virðist hafa verið ótrúlega skilningsríkur kennari og góð kona, en því miður er það nokkurnvegin það eina sem ég man eftir um hana.. hún var góð kona. Í nútíma þjóðfélagi hefði vonandi eitthvað verið gert; kennarinn kannski talað við yfirvöld og foreldra, en í þá daga "var þetta bara svona" Á þessum sama tíma var Helgi vinur minn lagður í einelti og leið mjög illa, auk þess sem hann þjáðist af ofvirkni eða einhverjum fjandanum. Ein af mínum minningum úr grunnskóla er að hafa staðið við dyrnar að reyna að komast inn á meðan gangavörður/kennari stóð og hélt hurðinni lokaðri. Á sama tíma stóð Helgi hinumegin við dyrnar í bræðiskasti að reyna að fá að komast út (Guð veit hvað hann ætlaði svosem að gera úti frekar en inni) en kennarinn var jafn mikið að meina honum að komast  út eins og mér inn. Helgi lamdi því kennarann og fékk að kynnast skólastjóranum eitthvað þann daginn, en sá maður var einnig yndislegur þó ekki hafi hann haft tökin á vandamálum skólans held ég.

Blessunarlega fór eineltið svona að hverfa í lok Gaggans, og þegar maður loksins komst í VMA þá var þetta búið. 16 ára gamall komst maður útúr bekkjarkerfinu og fór að vera með "fólki" en ekki "bekkjarfélögum", og sat ég kannski í tímum með 100 mismunandi manneskjum sama daginn. Þar fór maður loksins að kynnast fólki sem stökum persónum og annað hvort kom fólki saman eða ekki. Ég hugsa að þetta bekkjarlausa kerfi hafi bjargað lífi mínu á þessum tíma, og hryllir mig bara við hugsuninni hvað hefði gerst ef ég hefði skellt mér í MA og haldið áfram að vera í bekk með sama liðinu í 4 ár í viðbót.

Þrátt fyrir það að vera laus við eineltið í dag, er langt því frá að vandamálin hafi bara gufað upp. Það að vera þolandi eineltis í mörg ár hefur ofboðslega skaðleg áhrif á sálina. Það er andlega heilsan, margfalt meira en sú líkamlega, sem skemmist. Ég byrjaði fljótlega að borða frá mér vandamálin; þekkt lausn í þessum heimi; og öll þessi ógrynni af sælgæti og góðmeti urðu til þess að ég varð dálítið feitur. Ekkert svona "obese" Amerísk klisjustærð, en þó nóg til þess að það bættist bara á eineltið. Þetta er náttúrulega vítahringur sem erfitt er að losna út úr. En þarna var andlega vandamálið orðið að líkamlegu vandamáli. Á gelgjuskeiðinu hætti ég að nenna að læra á Píanó og hætti að nenna að stunda Badminton sem ég hafði mjög gaman af, en á móti kom að það byrjaði aðeins að togna úr líkamanum og hann byrjaði að vinna það vel að þrátt fyrir ómældar hitaeiningar hvern dag, þá fitnaði ég í raun ekkert meira. Ég var (og er) bara svona þykkur, og það sést svosem ekkert sérstaklega mikið á mér í dag þrátt fyrir nánast óbreytt líferni frá 15 ára aldri.

Það er hins vegar ákveðinn samnefnari fyrir öll mín vandamál.. það sést svosem ekkert á mér.

Rétt fyrir tvítugt fór ég að taka eftir því að mér leið ekki vel andlega. Það kemur þér kannski svosem ekkert á óvart að mér hafi liðið illa miðað við það sem ég skrifaði hér að ofan, en það sem ég meina er að ég fór svona að taka eftir því og hugsa um það að ég mér liði illa. Ég tók eftir því að ég var orðinn þunglyndur... eitthvað sem var bein afleiðing 10 ára af einelti og erfiðleikum.

Árið 2001, þegar ég var 22 ára, náði þunglyndið hámarki hjá mér. Ég skuldaði fullt af peningum, var að hafa kannski 50-100 þúsund minna inn á mánuði en útgjöldin voru, ég var einmanna, vissi ekki hvað ég ætti að gera í lífinu og listinn virðist hafa verið nokkuð endalaus. Lífið var ómögulegt, og ég ákvað því bara að hætta að lifa því. Ég út í bíl og keyrði um og hugsaði með mér hvað væri best að gera. Ég var vopnlaus (ef bíllinn er frátalinn) og var svona að velta fyrir mér hvort ég ætti að versla mér reipi eða kannski bara að keyra bílinn á 200 fram af brekku oní sjó. Þetta voru sennilega verstu klukkutímar lífs míns; að skipuleggja mitt eigið sjálfsmorð.
Eftir langan tíma gerðist hins vegar eitthvað furðulegt. Í hausnum á mér fóru allt í einu að hringla setningar eins og "Þú getur alveg dílað við þetta" og "Þú þarft ekki að drepa þig" og "Það eru engin vandamál óyfirstíganleg" og margar slíkar setningar sem börðust við þær neikvæðu. Ég keyrði um og barðist við sjálfan mig þangað til ég ákvað að fara heim, drepa mig ekki, og takast á við lífið. Besta ákvörðun lífs míns, og ég efast alls ekki um að þarna hafi ég fengið einhverja utanaðkomandi hjálp. Hvort það var látinn ættingi, engill, andi eða Guð er eitthvað sem ég reyni ekki einu sinni að spá í, en í sameiningu náðum við að bjarga mér frá hyldýpinu.

Eftir þetta fór ég í bankann og baðst vægðar og tók mig á peningalega, en umfram allt tók ég mig á andlega. Ég notaði mína ÓTRÚLEGU þrjósku til þess að ÁKVEÐA að ég væri bara alls ekkert þunglyndur. Mín stefna var semsagt sú sem ég hafði séð í kringum mig alla mína ævi.. það er hægt að sópa hlutum undir teppi og hafa þá þar, án þess að þeir skríði undan og bíti þig í tærnar.

Ekkert löngu eftir þetta fór Helgi vinur minn inn í bílskúr heima hjá sér og batt þar enda á sitt líf. Ég frétti þetta síðan í skólanum daginn eftir og var það held ég í fyrsta skipti sem ég grét í skólanum síðan ég var krakki. Hugsanirnar sem réðust á mig þar voru af hinu versta tagi: "Hann er farinn. Af hverju eyddi ég ekki meiri tíma með honum þegar hann var á lífi? Helvítis auminginn! Af hverju talaði ég ekki oftar við hann. Kannski hefði þetta aldrei gerst ef ég hefði bara talað oftar við hann og við kannski hjálpast að við að takast á við okkar vandamál.? Djöfulsins bjáni að gera okkur hinum þetta! Greyið greyið Helgi að hafa dottið svona lágt." Þetta ýtti undir allar mínar eldri hugmyndir og vanlíðan, ég kenndi sjálfum mér alveg ofboðslega mikið um, en þetta hjálpaði mér líka að vera þakklátur fyrir að hafa náð að vinna sjálfan mig útúr mínu tilræði. Enn þann dag í dag get ég ekki kíkt á leiði Helga öðruvísi en að einhversstaðar kíki á mig púkinn sem segir "þetta er þér að kenna", þrátt fyrir að ég viti undir niðri jafnt sem á yfirborðinu að ég átti enga sök á þessu, og það er alveg eins líklegt að þrátt fyrir að ég hefði verið meira með honum þá hefði hann samt ákveðið að fara. Lífið er ekki bara svart og hvítt.

Eftir þetta allt saman hefur hins vegar þunglyndi mitt verið mun viðráðanlegra. Ég geymi það undir yfirborðinu og reyni að halda lífinu einföldu og vandræðalausu. Ég hef ennþá mín vandamál og ég er ennþá þunglyndur upp að vissu marki, en ég næ allavega (ennþá) að takast á við hvern einasta dag svona tiltölulega vandræðalaust. Ég er einn af þessum heppnu... ég komst lifandi út úr vítahringnum.
Það væri óskandi að allir gætu verið jafn heppnir og ég í því  Errm


mbl.is Ætlaði að pynta þau og drepa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Um bloggið

Um allt og ekkert

Bloggið fjallar svosem um allt og ekkert. Bara ég að henda fram skoðunum mínum og hugsunum, og vonandi mun einhver nenna að lesa þær :)

Bloggari

Árni Viðar Björgvinsson
Árni Viðar Björgvinsson
er áhugamaður um gott líf og jákvæða framtíð, þrátt fyrir allar líkur á því að hvorugt takist :)

Bloggvinir

Bækur

sem ég er nýbúinn að lesa

  • Bók: Harry Potter and The Goblet Of Fire
    J.K. Rowling: Harry Potter and The Goblet Of Fire
    Þetta er nú sennilega í fimmtánda skipti eða eitthvað. Alltaf jafn gott ;)
    *****

sem ég er að lesa þessa dagana

  • Bók: Belgarath The Sorcerer
    David & Leigh Eddings: Belgarath The Sorcerer
  • Bók: Harry Potter and The Order Of The Phoenix
    J.K. Rowling: Harry Potter and The Order Of The Phoenix
    *****

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 455

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband